,,Hjá Landhelgisgæslunni eru til tölfræðileg gögn um fjölda tilvika á hverju ári þegar björgunarþyrla þarf að fara lengra frá landi en 20 mílur.  Út frá þessum staðreyndum blasir við í ljósi reynslunnar að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær upp komi atvik sem hafi dauðsfall í för með sér.”

Þetta segir Árni Bjarnason forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands í samtali við Fiskifréttir. Tilefnið er nýlegt atvik þar sem íslenskum togara með mann sem veikst hafði fyrir hjarta var synjað um aðstoð björgunarþyrlu. Togarinn var að veiðum um 70 mílur frá landi og aðeins ein þyrla til taks, en vinnuregla Landhelgisgæslunnar er sú að björgunarþyrla fari ekki lengra út frá ströndinni en 20 mílur nema til taks sé önnur þyrla í landi sem komi til aðstoðar ef hinni hlekkist á.

Sævar Gunnarsson formaður Sjómannasambands Íslands segir algjört lágmark sé að tvær þyrlur séu ávallt til taks.

,,Leigutími annarrar þyrlunnar rennur út eftir þrjá mánuði. Mjög erfitt er að fá þyrlur leigðar. Við óttumst það mest af öllu að ef ekki verður drifið í að framlengja leigusamninginn á þessari þyrlu verði næsta afsökun sú að ekki sé hægt að fá aðra þyrlu leigða. Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda,” segir Sævar.

Nánar um málið í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.