Grænlenska landsstjórnin hefur ákveðið að endurúthluta 8.500 tonnum af makrílkvóta við Austur-Grænland þar sem veiðar hafa verið langt undir heildarkvótanum þriðja árið í röð. Stærsti hluti endurúthlutunarinnar, 3.000 tonn, fara til Arctic Prime Fisheries, sem er að stórum hluta í eigu íslenska útgerðarfélagsins Brims hf.

Heildarkvótinn við A-Grænland var gefinn út fyrri hluta júnímánaðar, alls 66.000 tonn, og vakti þá athygli að Arctic Prime Fisheries fékk enga úthlutun. Erfiðlega hefur gengið að veiða makríl á svæðinu og er heildaraflinn ekki nema um 36.000 tonn. Allt útlit er því fyrir að heildaraflinn á þessu ári verði talsvert undir útgefnum kvóta þriðja árið í röð. Árið 2016 nam veiðin 35.600 tonnum og 30.400 tonnum árið 2015. Hins vegar veiddust 78.000 tonn árið 2014.

Auk Arctic Prime Fisheries fengu Arsuk Food og Sermilik úthlutað 500 tonnum hvor. Afganginum, 4.500 tonnum, verður úthlutað til þeirra útgerða sem verða í mestri þörf fyrir aukinn kvóta þegar nær dregur lokum veiðanna. Talið er að tvær til þrjár vikur séu eftir af vertíðinni.