Norðmenn hugðust freista gæfunnar í sumar á túnfiskveiðum rétt eins og Íslendingar en hafa ekki haft erindi sem erfiði,öfugt við það sem gerst hefur hér á landi.

Norsk stjórnvöld ákváðu að gefa út kvóta til túnfiskveiða í lögsögu sinni í sumar en síðast voru túnveiðar stundaðar við Noregi árið 1985. Norski báturinn Hillersöy hreppti kvótann, rúmlega 30 tonn, og hefur farið í þrjá túra úti af strönd Suður-Noregs en engan  túnfisk fundið.

Báturinn er nú í fjórðu og síðustu veiðiferðinni og segist Tore Hillersöy skipstjóri ekki ætla að gera fleiri tilraunir ef þessi túr reynist árangurslaus, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren í dag.

Meginmunurinn á túnfisktilraunum Hellersöy og veiðum Jóhönnu Gísladóttur GK er sá að norski báturinn reynir að veiða túnfiskinn í nót meðan Jóhanna er með flotlínu. Skipstjórinn segir að enda þótt hann hafi ekki fengið neinn fisk þýði það ekki að enginn túnfiskur sé við norsku ströndina. Báturinn sé lítill og hafið stórt og því snúið að vera á réttum stað á réttum tíma.

Hillersöy kveðst hafa tapað sem svarar 10 milljónum króna á þessu ævintýri ef ekkert finnist í þessum síðasta túr og deilir á stjórnvöld fyrir að styrkja ekki tilraunaveiðar sem þessar.