Samningar tókust ekki um stjórn kolmunnaveiða á fundi á Írlandi nú í vikunni. Þetta var fjórða tilraunin sem gerð hefur verið síðan í haust. Aftur á að reyna næsta sumar. Þátttakendur á fundinum voru fulltrúar strandríkjanna Færeyja, Íslands, ESB og Noregs auk Rússlands.

Í desember síðastliðnum var samið um heildarkvóta kolmunna á árinu 2015 og er hann 1.260 þúsund tonn (60 þús. tonnum hærri en í fyrra). Hins vegar er enn deilt um innbyrðis skiptingu veiðiheimildanna og stendur styrinn aðallega milli Noregs og Evrópusambandsins. Norðmenn vilja hærri hlut á þeirri forsendu að þeir hafi ekki lengur þann aðgang á ESB-lögsögunni sem þeir höfðu áður. Norðmenn hafa nú þegar hækkað sinn hlut úr 26% í 35% og gefið út kvóta í samræmi við það. Íslendingar hafa einnig gefið út sinn kolmunnakvóta byggðan á gildandi hlutdeild sem er 17,63%.

Í frétt á færeyska vefnum fiskur.fo  segir að ESB telji sig eiga að fá meiri kvóta og að hlutur Íslands sé of hár.

UPPFÆRT: Í frétt frá atvinnuvegaráðuneytinu íslenska segir, að á fundinum hafi  Færeyingar og Evrópusambandið lagt fram sameiginlegar kröfur um stóraukna hlutdeild sér til handa á kostnað strandríkjanna Íslands og Noregs en lögðu þó til að hlutur Rússlands sem úthafsveiðiþjóðar héldist óbreyttur.