Ansjósustofninn úti fyrir ströndum Perú er sterkur og góðar líkur eru taldar á góðri veiði á seinni helmingi ansjósuvertíðarinnar, samkvæmt perúskum stjórnvöldum. Fyrri hluti vertíðarinnar náði yfir sumarið og veiddust um 98% af útgefnum heildarkvóta sem var 2.480.000 tonn. Afrakstur veiðanna var greininni mikið fagnaðarefni en undanfarnar tvær vertíðir voru mikil vonbrigði.

Í janúar á þessu ári var lokað fyrir seinna veiðitímabilið talsvert áður en því átti að ljúka vegna aflabrests og áður hafði fyrri hluta veiðitímabilsins 2023 verið slegið af með öllu. Ansjósuveiðar Perúmanna eru einhverjar umfangsmestu veiðar sem sögur fara af. Þær eru efnahag í Perú mjög mikilvægar og tekjurnar hlaupa á milljörðum dollara. Veiðarnar eru líka mjög mikilvægar fiskeldi á alþjóðavísu því ansjósuafli Perúmanna stendur undir 20% af heildarframboði fiskmjöls í heiminum.

Heildarframboð á fiskmjöli og lýsi hefur aukist á þessu sem að stórum hluta má rekja til mikillar ansjósuveiði við Perú á þessu ári, að mati IFFO, hagsmunasamtaka nokkurra af leiðandi fisk- og lýsisframleiðendum heims. Seinni hluti ansjósutímabilsins hefst líklega í byrjun nóvember en það ræðst þó endanlega af vísindalegum niðurstöðum. Allt bendir þó til þess að þær hefjist þá og að ansjósustofninn sé mjög sterkur. Virðist raunar flest benda til þess að heildarkvótinn fyrir þetta ár verði í kringum 10 milljónir tonna. Uppsjávarskipum er heimilt að veiða að hámarki 35% af þeim lífsmassa sem mældur er og 65% hans er látinn í friði í hafinu til frekari uppbyggingar stofnsins.