Fornbátaskrá með upplýsingum um 190 báta, samtals 828 blaðsíður, var gefin út í vetur á vegum Sambands íslenskra sjóminjasafna. Flestir bátarnir eru í eigu safna en um 10% eru í einkaeigu. Inn í skrána vantar dálítinn fjölda báta í einkaeigu og stendur til að bæta úr því sem fyrst. Fjöldi ljósmynda er í skránni ásamt ítarlegum upplýsingum um bátana, ástand þeirra og sögu. Ennfremur er lagt mat á varðveislugildi hvers báts.
„Skráin mun vonandi stuðla að bættri bátavernd og auðvelda alla vinnu við ákvarðanatökur um hvað æskilegt sé að varðveita til framtíðar og hvað ekki,“ segir í inngangi skrárinnar. Hún er birt á vefnum batasmidi.is, alls 28 skýrslur á pdf-formi.
„Þeir liggja ansi margir undir skemmdum,“ segir Helgi Máni Sigurðsson, aðalhöfundur fornbátaskrárinnar. Hann tók meðal annars fjöldann allan af ljósmyndum af bátum til að sýna ástand þeirra. „Ég er svolítið að draga þetta fram, taka myndir af ástandinu til að ýta á eigendur öðrum þræði til þess að sinna þessum bátum. Stundum er það þannig að einhver tekur við bát og hættir svo hjá safninu nokkrum árum seinna og þá kemur einhver annar sem hefur ekki áhuga á bátnum.“
Vanræksla
Helgi hefur starfað við sjóminjar í ein sautján ár, fyrst sem starfsmaður Sjóminjasafnsins í Reykjavík frá árinu 2003 og síðan á Borgarsögusafni eftir að Sjóminjasafnið sameinaðist því. Hann er einnig formaður Sambands íslenskra sjóminjasafna. Hann segir að málefni fornbáta hafi þar verið efst á baugi og satt að segja sé staðan á þeim málum frekar bágborin. Þau hafi verið vanrækt.
„Kerfið hefur ekki náð til fornbáta. Það er eins og þeir skipti ekki máli. Til dæmis er enginn aðili hérlendis sem hefur eftirlit með stöðu fornbáta,“ segir Helgi. „Það má eiginlega skilja það þannig að þetta séu annars flokks minjar.“
Kostnaður við varðveislu gamalla báta er töluverður en nánast engir sjóðir til sem hægt er að leita í. Fornminjasjóður er reyndar til, en hann er ætlaður í fornminjar og fornleifarannsóknir almennt. Úr honum er úthlutað ríflega 40 milljónum króna ár hvert, og þar af hafa verkefni tengd fornbátum fengið um 5%.
„Okkur var skotið inn í lögin árið 2012 án þess að sá sjóður væri stækkaður. Það var bara til málamynda gert því sjóðurinn er ekki fær um að fara eftir þessum lögum. Hann stendur sig ekkert vel gagnvart fornleifunum heldur. Einn alvöru fornleifagröftur slagar hátt upp í þessa upphæð.“ Hann segir erfitt að átta sig á því hvers vegna fornbátum og varðveislu þeirra hafi ekki verið gerð betri skil hér á landi.
„Það eru mörg rök sem styðja það að við ættum að leggja rækt við þennan arf. Einfaldlega vegna þess hve sjósókn, flutningar, ferðalög og önnur notkun báta og skipa hefur verið nauðsynleg til að lifa af á þessari eyju sem við búum á.“
Samkvæmt lögunum miðast varðveisla við árið 1950. Bátar eldri en það teljast til fornminja, en Helgi telur þetta ártal ekki vera neitt aðalatriði. „Að okkar mati er ekki rétt að miða við ártalið 1950 og raunar einnig strangt við árið 1970. Norðmenn miða við 50 ár og ef við færum til ársins 1970 þá mundu nokkuð margir bátar bætast þar við, jafnvel of margir. Varðveislugildi báts er alltaf matsatriði, þar kemur aldur inn í en einnig fleiri þættir.“

Áhuginn að aukast
Hann segir áhuga almennings á fornbátum reyndar hafa aukist mikið á seinni árum. Fleiri eru farnir að láta í sér heyra. „Það er hreyfing á þessu og maður er bjartsýnn á að þetta þokist áfram heldur hraðar en það hefur gert. Það er samt ekki nóg að taka bát og ákveða að hann skuli geymast. Það þarf að vera hægt að varðveita hann, hafa fjármuni til þess og húsnæði. Það eru ansi margir eigendur báta, bæði söfn og einstaklingar, sem hafa ekki burði til að varðveita þá. Þess vegna erum við líka að gagnrýna það að framlög til bátavarðveislu hafa verið sáralítil.“
Helgi segir vissulega stundum mögulegt að leita annað eftir fjármagni. Faxaflóahafnir hafi til dæmis verið að styrkja Sjóminjasafnið í Reykjavík nokkuð myndarlega og nokkur bæjarfélög hafi lagt fé í varðveislu báta.
„Það er samt dálítið misjafnt og fer eftir því hverjir eru í bæjarstjórn á hverjum stað. Menn hafa verið svolítið duglegir að safna bátum, frá svona 1990, en þeir eru ansi margir sem eru ekki í góðu ástandi eða ekki geymdir við góðar aðstæður.“ Almennt er viðurkennt að til þess að varðveita báta svo vel fari þurfi þeir annað hvort að vera undir þaki eða í notkun á sjó. Bátar sem geymdir eru á landi óvarðir, undir berum himni, grotna niður býsna hratt.
„Það er talað um að á fimm árum stórsjái á bát ef ekkert er gert fyrir hann. Hús þola kannski vanrækslu á viðhaldi í 20 ár en bátar þurfa að vera í notkun eða vera undir þaki. Ef fjármunir eru takmarkaðir, eins og alltaf er, er síðan margfalt ódýrara að setja þá undir þak.“
Víða um land, sennilega mun víðar en margir gera sér grein fyrir, hafa gamlir bátar reyndar verið gerðir upp og eru varðveittir á byggðasöfnum og öðrum söfnum. „Þetta eru samt mest minni bátar, árabátar. Stærri bátarnir, dekkuðu bátarnir, eiga mun frekar undir högg að sækja. Það verður alltaf dýrara að standsetja þá og viðhalda þeim.“
Helgi segir að í nágrannalöndum okkar, Danmörku og Noregi, hafi bátar og skip einnig setið á hakanum miðað við aðrar minjar þangað til fyrir 20 til 30 árum þegar gert var átak í þessum málum þar. „Þetta er komið í mjög gott horf í þessum löndum núna, og eitthvað svipað þarf að gerast hér.“

Dísirnar og Tóti
Sædís ÍS 67 er ein af Dísunum sem smíðaðar voru stuttu fyrir seinni heimsstyrjöldina.
Um Dísirnar segir í Fornbátaskránni: „Á árunum 1938 og 1939 lét Hlutafélagið Njörður smíða fyrir sig fimm skip, um 15 brl. að stærð, í Skipasmíðastöð Bárðar G. Tómassonar og var Sædís eitt þeirra. Sjötta skipið var síðan smíðað árið 1943. Þessi skip gengu undir nafninu dísirnar því að nöfnin á þeim enduðu öll á dís. Sædís ÍS 67 var sú fyrsta.
Byggðasafnið metur sögulegt gildi bátsins talsvert. Fyrir því eru ýmsar ástæður, m.a. að dísirnar voru hannaðar og smíðaðar á Ísafirði og voru burðarásar í atvinnulífinu á staðnum í fjölda ára.“
Tóti ÍS 10 var smíðaður í Bolungarvík árið 1930. Smiður var Falur Jakobsson.
Um Tóta segir í Fornbátaskránni: „Tóti var notaður bæði til fiskveiða og flutninga. Hann var fyrsti báturinn sem Einar Guðfinnsson útgerðarmaður í Bolungarvík lét smíða fyrir sig. Hann var gerður út frá Bolungarvík til ársins 1947 og í notkun við Djúp allt til ársins 1968 er hann var dæmdur ónýtur. Steingrímur Pétursson bóndi frá Hjöllum í Skötufirði afhenti hann Byggðasafni Vestfjarða árið 1987.
Núverandi ástand Tóta er mjög bágborið og viðgerð má ekki dragast mikið lengur. Tóti er orðinn mjög fúinn og er að grotna niður í orðsins fyllstu merkingu þar sem eyðingaröflin vinna hratt á honum.“

Meðal elstu vélbáta landsins
Hrólfur Gautreksson eða Gauti eins og hann var jafnan kallaður, var smíðaður árið 1906. Um hann segir í Fornbátaskránni:
„Þetta er líklega merkilegasti bátur Austfjarða. Hann er meðal elstu vélbáta landsins og í viðráðanlegu standi. Báturinn virðist hafa verið vel smíðaður og vel staðið að viðhaldi á honum því að hann var gerður út í tæpa sex áratugi.
Eftir að bátnum var lagt, 1965, var lítið gert fyrir hann til að byrja með. En síðan kom að því að hann var gerður upp af bænum, 1988-1990, og smíðað á hann nýtt stýrishús. Því mun ekki hafa verið fylgt nægilega vel eftir, hann var ekki málaður reglulega næstu árin, mun hafa verið málaður alls þrisvar, síðast af nemendum vinnuskólans árið 2017. Og sjaldan eða aldrei var breitt yfir hann yfir veturinn.
Árið 2017 var báturinn aftur orðinn svo fúinn að ekki þótti óhætt að hafa hann lengur úti.
Einhverjar raddir heyrðust þá um að það ætti að henda honum. Að mati Guðmundar Sveinssonar, afgreiðslumanns og bátaáhugamanns, var það fráleitt, báturinn hafi komið ári eftir að vélbátaöld hófst í Neskaupstað (fyrsti báturinn hét Fram, 1905). En honum kom á óvart hve fljótt báturinn fúnaði, hann veltir fyrir sér m.a. hvort hann hafi verið gerður of þéttur, það hafi ekki loftað nægilega um hann.
Jens, bátasmiður á Fáskrúðsfirði, einn fárra trébátasmiða sem eftir eru á fjörðunum, skoðaði bátinn og komst svo að orði að hann væri ekki eins slæmur og hann virtist. Ljóst er þó eftir stutta skoðun undirritaðs að bátinn má ekki setja út hér eftir. Hins vegar ef hann er hafður inni þá dugir að skrapa hann og mála og gera við dekkið í fyrstu umferð. Og setja aftur saman stýrishúsið sem sagað var í sundur til að koma bátnum inn þar sem hann er núna.“

Komst undan þýskum kafbáti
Skaftfellingur VE 33 var smíðaður í Danmörku og keyptur til landsins árið 1918. Um hann segir í Fornbátaskránni:
„Skaftfellingur á sér merka sögu. Hann er eitt fárra flutningaskipa í fornbátaskránni. Segja má að skipið sé hryggðarmynd. En þess merkilegra er að Mýrdælingar skuli hafa ákveðið að varðveita hann. Á Íslandi vex mönnum í augum að varðveita svona skip vegna kostnaðarins sem því fylgir að gera þau upp. En það er ekki alltaf nauðsynlegt að gera þá upp. Skaftfelling má varðveita eins og hann er. Dæmi um slíkt eru nokkur í nágrannalöndunum.
Skaftfellingur flutti vörur og farþega frá Reykjavík til Vestmannaeyja, þaðan til Víkur og þaðan að Skaftárósi og að Hvalsíki. Tvisvar til þrisvar á ári fór hann alla leið austur undir Öræfi. Oft var sjólag við sandana það slæmt að Skaftfellingur varð að bíða í Vestmannaeyjum í marga daga eftir að fært yrði til Víkur og austar.
Skaftfellingur var aðallega í siglingum á sumrin og fram í miðjan október, þegar sláturtíð lauk. Þá var bátnum að jafnaði lagt ef ekki var hægt að leigja hann út til flutninga á vegum annarra.
Eftir stríð, 1945, var Skaftfellingur notaður til flutninga milli hafna á Íslandi og í lokin sem fiskiskip. Siglingasögu hans lauk 1963, var hann þá færður í slipp og afskrifaður árið 1974. Hann var í slippnum allt til ársins 2000 þar sem hann stóð af sér sól, regn og frost. Árið 2000 var Skaftfellingur hreinsaður og settur undir segl og árið eftir var var hann fluttur til Víkur í Mýrdal til varðveislu.
Mesta frægðarverk áhafnar skipsins á stríðsárunum var björgun þýskra kafbátsmanna í ágúst 1942. Þá komst Skaftfellingur einnig undan þýskum kafbáti sem skaut að skipinu nokkrum vikum eftir björgun áhafnar kafbátsins.“

Hvalbátarnir í fjörunni
Hvalbátarnir Hvalur 6 og Hvalur 7 voru smíðaðir í Englandi á árunum 1943 og 1944, sennilega eftir sömu teikningu en þó er annar þeirra litlu stærri og lengri.
Bátunum var báðum sökkt í Reykjavíkurhöfn árið 1986. Þar voru að verki liðsmenn Sea Shepherd samtakanna.
Um Hval 6 segir í Fornbátaskránni: „Hann var gerður út til hvalveiða í Suðurhöfum á vegum breskra aðila á árunum 1946-1961. Frá 1962 til 1985 var hann gerður út frá Miðsandi, Hvalfirði. Skráð heimahöfn var Reykjavík.
Hval 6 var sökkt árið 1986, eins og Hval 7. Í ágúst 2011 dró Magni Hval 6 og 7 upp í Hvalfjörð á stórstraumsflóði. Þar var þeim lagt í fjöru skammt frá hvalstöðinni, sitja þeir þar stöðugir á klöpp. Um 100 tonnum af vatni var dælt í hvorn bát og þeir tengdir við hitaveitu og rafmagn. Fyrirhugað er að þeir verði hluti af hvalveiðisafni.
Báturinn fékk gott viðhald meðan hann var í notkun. Þegar honum var sökkt, 1986, var honum lyft upp aftur eins fljótt og mögulegt var og dælt úr honum. Síðan var lögð áhersla á að hreinsa og þurrka upp vélarúm, lestir og annars staðar neðan þilja. Þá voru katlarnir kyntir og vélarnar ræstar, sem gekk vel.
Sennilega hefur mjög lítið verið gert fyrir bátinn eftir 1986, m.a. vegna þess að hvalveiðibann var í gildi í 14 ár þar á eftir, frá 1989. Trúlega er fyrirhugað að mála hann og ryðverja þegar og ef hvalveiðisafn verður opnað.“
Hreyfing á þingi í vetur
Málefni fornbáta hafa verið í ólestri hér á landi, eins og fram kemur í máli Helga M. Sigurðssonar. Jafnvel sögufrægir og markverðir bátar hafa grotnað niður hver á fætur öðrum án þess að nokkuð væri reynt að sporna gegn því.
Undanfarna áratugi hefur nokkrum sinnum verið hreyft við þessu máli á þingi og nú í vetur voru lagðar fram tvær þingsályktunartillögur. Báðar hafa þær verið ræddar og sendar áfram til allsherjar- og menntamálanefndar.
Önnur tillagan er um „verndun og varðveislu skipa og báta“ og gengur út á að skipaður verði starfshópur sem geri úttekt á því hvernig staðið er að verndun og varðveislu skipa og báta. Jafnframt geri þessi starfshópur tillögur að úrbótum innan árs og finni fjármögnunarleiðir.
Hin tillagan er um „viðhald og varðveislu gamalla báta“ og gengur út á að stofnaður verði sjóður sem hafi það hlutverk að halda við og varðveita gömul skip og báta. Sjóður þessi fái árleg framlög af fjárlögum og jafnframt verði stuðlað að því að sjávarútvegurinn taki þátt í þessu verkefni.
Óvíst er hver afdrif þessara tillagna verða. Þeim var eins og mörgum öðrum þingmálum frestað þegar heimsfaraldur COVID-19 tók að herja á landsmenn.