Fækka þarf fiskvinnslufólki um helming í Noregi á næstu tíu árum. Aukin vélvæðing og sjálfvirkni á síðan að leysa mannshöndina af hólmi. Þetta er nauðsynleg aðgerð til að auka hagkvæmni í fiskvinnslu, samkvæmt nýlegri skýrslu sem rannsóknastofnunin Sintef hefur unnið fyrir norska sjávarútvegsráðuneytið.

Starfsfólk í fiskvinnslu í Noregi er um 9.600 manns þannig að þessi áform, ef af þeim verður, hafa áhrif á fjölda fólks. Með þessum aðgerðum á að auka samkeppnishæfni norskra fiskvinnslufyrirtækja en í helstu samkeppnislöndum eru laun fiskvinnslufólks um 55% lægri en í Noregi.

Vinnsla á hvítfiski hefur skilað slakri afkomu undanfarin ár einkum og sér í lagi flakavinnslan. Vinnsla á laxi er hins vegar mjög tæknivædd, svo sem varðandi sjálfvirka beinahreinsun, snyrtingu og fleira.

Í umfjöllun Fiskeribladet/Fiskaren um málið kemur fram að norsk fiskvinnslufyrirtæki séu engan vegin í stakk búin til að fjárfesta í nýjum tækjabúnaði og nýrri tækni. Rætt er við skýrsluhöfund sem segir að tæknivæðingin verði ekki að veruleika nema með styrk og stuðningi hins opinbera. Það þurfi þjóðarátak til. Bent er á að tæknin sé til staðar, bæði hjá íslenskum og þýskum fyrirtækjum. Það vanti aðeins fjármagn til að innleiða þessa tækni í norskum fiskiðnaði.

Einnig kemur fram í umfjölluninni að vandi fiskvinnslunnar sé ekki eingöngu hár launakostnaður og lítil sjálfvirkni. Taka þurfi á gæðamálum varðandi hráefni og bæta aflameðferð. Þá þurfi að breyta sjálfu kerfinu til að fiskiðnaðurinn hafi meiri stjórn á allri virðiskeðjunni en nú er. Norskur fiskiðnaður þurfi að vera meira markaðsdrifin svo fiskvinnslan geti betur brugðist við því sem markaðurinn kallar eftir.