Yfirvöld í Bandaríkjunum krefja American Seafood um 2,7 milljónir dala, sem jafngildir um 327 milljónum króna, í sekt vegna vantalins afla síðustu ára.
Sektin er tilkomin vegna að þess að við eftirlit kom í ljós að vigtar um borð í verksmiðjutogurum fyrirtækisins höfðu verið endurstilltar. Að jafnaði sýndu vigtarnar 6 til 17% minna en þær áttu að gera en í grófasta tilfellinu munaði 70%. Leyfileg skekkja er 3%.
Athæfið gerði togurum fyrirtækisins kleift að veiða mun meira en kvóti þeirra gerði ráð fyrir.
American Seafood gerir út sex verksmiðjutogara sem veiða alaskaufsa og er velta fyrirtækisins um 500 milljón dalir á ári eða ríflega 60 milljarðar íslenskra króna.