Forustumenn samtaka sjómanna og skipstjórnenda leggjast alfarið gegn hugmyndum um uppboð aflaheimilda og telja þá leið vega að starfsöryggi sjómanna og hagsmunum þjóðarinnar.

Þetta kemur fram í viðtölum við Árna Bjarnason forseta FFSÍ og Valmund Valmundsson formann SSÍ í nýjustu Fiskifréttum.

„Það alvarlegasta við þessar hugmyndir,“ segir Árni, „ er að yrðu þær að veruleika byggju sjómenn í fyrsta sinn í sögu fiskveiða við Ísland ekki við neitt atvinnuöryggi. Þeir gætu aldrei vitað hvort þeirra útgerð fengi heimildir eður ei. Í þessum hugmyndum felst ámælisvert virðingarleysi fyrir sjómönnum.“

Valmundur tekur í sama streng. „Ekki aðeins yrði atvinnuöryggi sjómanna í hættu heldur margra annarra. Þessi leið er ekki fær nema menn vilji fara að breyta öllu hér í einhvers konar farandmennsku.“

Báðir eru þeirrar skoðunar að uppboðsleið myndi leiða til þess að aflaheimildirnar færðust á færri  hendur.

Sjá nánar í Fiskifréttum.