„Það hefur ekki fengist nein loðna síðan um miðjan dag í gær. Skipin voru þá öll að kasta á mjög litlum bletti hérna suðvestan við Snæfellsnes og bletturinn þurrkaðist upp hratt og örugglega og síðan ekki söguna meir,“ sagði Daði Þorsteinsson skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni SU þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans um tíuleytið í morgun.
Nú er það ekki veðrið sem hamlar veiðum eins og svo oft í vetur heldur það að loðnan er lögst á botninn til hrygningar. Daði sagðist hafa afskaplega litla trú á því að meira af loðnu kæmi að vestan enda kominn 20. mars. Ef að vanda lætur verður þó hægt að skrapa upp eitthvað af karlsíli þegar það gengur upp í fjörurnar.
Eskjuskipin tvö, Aðalsteinn Jónsson SU og Jón Kjartansson SU, eru búin með kvóta sína og geta því vel við unað en sumir aðrir eiga eitthvað eftir óveitt af kvótanum.