Engin matvælaframleiðsla úr hafinu hefur vaxið jafn hratt á síðustu áratugum og sjálfbær öflun og stórþörungarækt (þang og þari). Á Íslandi eru kjöraðstæður til ræktunar bæði smá- og stórþörunga enda erum við með aðgang að grænni raforku, jarðvarma og hreinum sjó og vatni. Ísland hefur skipað sér sess í framleiðslu smáþörunga með leiðandi fyrirtæki líkt Algalíf og Vaxa - en bæði fyrirtækin verða með fulltrúa sína á alþjóðlegu þörungaráðstefnunni Arctic Algae sem fer fram dagana 4. og 5. september næstkomandi. Þema ráðstefnunnar er hagræn og umhverfisvæn áhrif smá- og stórþörungastarfsemi og fer fram í höfuðstöðvum Arion banka við Borgartún.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra mun opna ráðstefnuna en meðal frummælanda verða fulltrúar stærstu félaga í Færeyjum, Noregi og Bandaríkjunum í stórþörungaræktun og fullframleiðslu ásamt Finni Árnasyni framkvæmdastjóra Þörungavinnslunnar á Reykhólum. Þá verður framkvæmdastjóri hjá stærstu umhverfissamtökum í heimi (WWF), Paul Dobbins, þátttakandi í málstofu sem og með erindi og Færeyingurinn Ólavur Gregersen, sem er stofnandi og framkvæmdastjóri Ocean Rainforest, sem er stærsta fyrirtæki Evrópu á sviði stórþörungaræktunnar.