Viðhorf Norðmanna til eldislax hefur tekið miklum breytingum að undanförnu ef marka má niðurstöður úr könnun sem norska ríkisútvarpið, NRK, lét framkvæma og segir frá í dag.

Kemur fram að 37 prósent aðspurðra segjast neikvæðari í garð eldislax en áður. Í frétt NRK er bent á að þessi viðhorfsbreyting komi í kjölfar margra slæmra frétta af eldislaxi að undanförnu.

Flestir sem skipt hafa um skoðun nefna siðfræðilega og umhverfislega þætti sem orsök þess. Þá kemur fram að stærstan hluta þeirra sem hafi orðið neikvæðari sé að finna í aldurshópnum 60 til 79 ára. Færri meðal yngra fólks hafi bæst í hóp þeirra sem hafi neikvæða mynd af laxeldinu.

Söluverðmætið nærri sextán hundruð milljarðar

Bendir NRK að á sama tíma og laxeldið skapi bæði störf og tekjur hafi umhverfisverndarsinnar og fleiri spurt spurninga um greinina allt frá því fyrst sjókvíin var sett út í Noregi á áttunda áratugnum. Fyrir tuttugu árum hafi hið virta vísindatímarit Science birt umtalaða rannsókn sem leitt hafi í ljós að fleiri eiturefni séu í eldislaxi en í villtum laxi og að eldislaxi í Evrópu væri mun mengaðri en í Bandaríkjunum. Sýndist sitt hverjum um þessar niðurstöður segir NRK.

Í fyrra settu Norðmenn enn eitt metið í útflutningi á eldislax. Þá voru flutt út 1,2 milljón tonn af laxi að verðmæti 122,5 milljarða norskra króna, jafnvirði hvorki meira né minna en 1.585 milljarða íslenskra króna. Segir NRK þennan útflutning jafngilda um fjórum milljörðum máltíða.

Vandasamt og tímafrekt að endurreisa orðsporið

Trond Blindheim sem er dósent við Háskólann í Kristiania, segir við NRK að eldisfyrirtækin þurfi að taka sig alvarlega saman í andlitinu. Fram undan hjá þeim sé vandasamt og tímafrekt verkefni ætli þau að endurreisa gott orðspor sitt.

„Við tökum áhyggjur fólks alvarlega og það er mikilvægt að fá fram alla þessa neikvæðu hluti sem verið hafa sérstaklega núna síðasta árið og sem eru undantekningar í öllum stórum dráttum, hefur NRK eftir Øyvind Andre Haram sem er upplýsingafulltrúi í Sjømat Noreg, sem 850 fyrirtæki í sjávarútvegi í Noregi eiga aðild að.

Øyvind segist leggja áherslu á að í könnuninni fyrir NRK segist meirihlutinn ekki hafa orðið neikvæðari garð laxeldis en áður. Fólk bregðist gjarnan við út frá því hvernig sagt sé fra málum í fréttum.

„Ef við hefðum haft jafn margar fréttir um hluti sem eru jákvæðir myndi þessar tölur vísast líta öðru vísi út,“ segir Øyvind.

Ítarlega umfjöllun NRK um málið má lesa hér.