Vegna mistaka sem urðu á vinnslu kynningargreinar VÍS í tímariti Fiskifrétta sem kom út í dag, er greinin hér birt á ný:

VÍS hefur í samvinnu við Slysavarnaskóla sjómanna unnið markvisst með viðskiptavinum sínum að öryggismálum sjómanna allt frá árinu 2009. Frá þeim tíma hefur slysum fækkað og áhafnir orðið meðvitaðri um þær hættur sem fylgja starfinu. Í kjölfarið hefur þetta góða starf verið tekið upp víða í landvinnslunni.

„VÍS var fyrst íslenskra tryggingafélaga til að taka upp samstarf við Slysavarnaskóla sjómanna. Það hefur tekist vel til og nú er almennt hugað mun betur að hvers kyns slysavörnum um borð. Óvæntur ávöxtur af samstarfinu var svo að þessi árangur í öryggismálum til sjós skyldi smita yfir í landvinnsluna hjá mörgum. Undanfarin ár hefur tjónatíðni því miður vaxið í landvinnslu og þangað beinum við því sjónum okkar í auknum mæli,“ segir Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í forvörnum fyrirtækja hjá VÍS.

Mikilvægi atvikaskráningar

Eitt af verkefnum VÍS til að auka öryggi í landvinnslu var að þróa forrit til að skrá og halda utan um öll atvik sem tengja má við slys einhverjum hætti, beinum eða óbeinum. Það hafa fyrirtæki í langtíma viðskiptum við tryggingarfélagið fengið gefins.

„Stjórnendur og starfsmenn nota forritið til þess að skrá inn ábendingar um hættur í vinnuumhverfinu, næstum því slys eins og það er kallað, minniháttar slys og  stærri slys sem leiða til fjarveru frá vinnu. Þarna á sem sagt að skrá allt sem að þessu lítur. Forritið gefur fyrirtækjum mun betri sýn yfir stöðu öryggismála í landvinnslunni. Sem dæmi má nefna að í upphafi árs tók ein stórútgerð hér á landi upp þessa skráningu. Stjórnendur þar á bæ hafa haft á orði að þetta hafi gjörbreytt stöðu þessara mála í landvinnslunni. Enda berast upplýsingar um hvert atvik strax í miðlægan grunn fyrirtækjanna og ekki dregst á langinn að tilkynna það til viðeigandi aðila. Þetta er því öllum aðgengilegt hratt og vel.“

Gísli Níls segir að annar kostur við forritið sé sá að þegar ábendingar berist eða slys skráð sé hægt að ráðast strax ráðist í úrbætur. Reynslan hafi sýnt að oftast geti verkstjóri á staðnum gengið í  verkið án tafar.

Hann segir einnig ánægjulegt að flestar skráningar séu ábendingar frá starfsmönnum um hættu í vinnuumhverfinu, skráningar á næstum því slysum og minniháttar slysum. Í þeim tilvikum sé unnt að bregðast strax við og bæta úr áður en alvarlegt slys verði.

Gísli Níls segir það ekki fara á milli mála að stjórnendur í landvinnslunni vilji hafa öryggismálin í lagi hjá sér. Þeir séu líka tilbúnir að deila reynslu sinni og lausnum á þessu sviði til annarra fyrirtækja.

Tækifæri hjá tækjaframleiðendum

Gísli Níls telur mikilvægt að löggjafinn haldi úti reglubundnu eftirliti og veiti upplýsandi ráðgjöf til að sporna við slysum í landvinnslunni. Jafnframt að allir hlutaðeigandi verði að leggjast á eitt við að gæta að forvörnum.

„Það er mjög mikilvægt að allir hagsmunaðilar rói í sömu átt, t.d. fiskvinnslufyrirtæki og eftirlitsaðilar. Sama á við umframleiðendur fiskvinnslutækja. Þeir geta til að mynda hugað betur að öryggismálum strax við hönnun, áður en tækin eru framleidd. Ef við ætlum að ná viðunandi árangri á þessu sviði í landvinnslunni, eins og úti á sjó, þá þurfa allir að róa í sömu átt,“ segir Gísli Níls.