Alþjóðlega sjávarútvegssýningin Seafood Expo Global í Barcelona á Spáni stendur yfir dagana 6.- 8. maí. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum á sviði veiða, vinnslu og sölu sjávarafurða.
Samherji og Ice Fresh Seafood eru að venju með stóran bás á sýningunni, þar sem tekið er á móti gestum frá öllum heimshlutum og afurðir kynntar. Ice Fresh Seafood er dótturfélag Samherja og sér um að selja afurðir félagsins og fleiri fyrirtækja.
Jóhannes Már Jóhannesson sölustjóri hjá Ice Fresh Seafood hefur starfað í nærri fjóra áratugi við að selja íslenskar sjávarafurðir og hefur því sótt fjöldan allan af slíkum sýningum. Hann hefur starfað í 15 ár hjá Samherja og Ice Fresh Seafood við sölu sjávarafurða.

Fundir frá morgni til kvölds
„Mér telst til að þessi sýning sé númer 33 hjá mér, þannig að ég á því láni að fagna að hafa fylgst nokkuð lengi með stefnum og straumum í alþjóðlegum sjávarútvegi. Sýningin var áður í Brussel en að mínu viti hentar Barcelona á ýmsan hátt betur. Þetta er gríðarlega stór sýning í nokkrum samliggjandi höllum og alla dagana er stöðugur straumur fólks sem heimsækir okkur á básinn sem er rúmgóður og vel staðsettur. Starfsfólkið er með bókaða fundi frá morgni til kvölds, þannig að þessir dagar eru erilsamir en að sama skapi afskaplega skemmtilegir og gefandi,“ segir Jóhannes Már.
Persónuleg samskipti mikilvæg
Hann segir að á slíkum sýningum gefist gjarnan tækifæri til persónulegra samskipta, sem séu nauðsynleg á tímum rafrænna samskipta.
„Hérna hittum við fulltrúa fyrirtækja sem hafa verið í viðskiptum við okkur og sömuleiðis er lagður grunnur að nýjum viðskiptasamböndum. Stundum er sagt að íslenski fiskurinn selji sig sjálfur, staðreyndin er engu að síður sú að samkeppnin er gríðarlega hörð og þess vegna er lykilatriði að vinna faglega. Afurðirnar sem við seljum eru þekktar fyrir gæði og ferskleika, auk þess sem við leggjum kapp á að afhenda fiskinn á umsömdum tíma. Allir þættir þurfa því að vinna saman, veiðar, vinnsla og sala. Góð persónuleg samskipti eru gríðarlega mikilvæg, þótt rafræn samskipti séu líka góð og gild.“
Heimurinn allur á sama punktinum
Jóhannes Már segir að eðli málsins samkvæmt hafi hann kynnst fólki frá öllum heimsálfum á undanförnum áratugum.
„Já, já, starfinu fylgja töluverð ferðalög og ég nýt þess að heimsækja viðskiptavini okkar. En, já, löndin sem ég hef heimsótt eru nokkuð mörg og tengslanetið orðið þétt. Reyndar er ekki nóg að heimsækja viðskiptavinina reglulega, komur þeirra til Íslands eru ekki síður mikilvægar. Í slíkum heimsóknum gefst kjörið tækifæri til að sýna íslenskan sjávarútveg og kynna í leiðinni land og þjóð. Á stórum alþjóðlegum sýningum eins og hérna í Barcelona má segja að fiskiheimurinn allur hittist á sama punktinum og beri saman bækur sínar. Við mætum til leiks vel undirbúin og staðráðin í að skila góðu verki, þetta er þéttur og samheldinn hópur sem veit nákvæmlega hvernig best er að standa að málum. Markmiðið er fyrst og fremst að bæta enn frekar þjónustuna.“
Ferskt íslenskt hráefni
Jóhannes segir að bás Samherja og Ice Fresh Seafood sé annálaður fyrir að bjóða upp á frábærar veitingar.
„Einar Geirsson matreiðslumeistari á Rub23 hefur fylgt okkur í um tvo áratugi, hann hefur yfirumsjón með matreiðslu á básnum og íslenskur fiskur er auðvitað í öndvegi. Við tökum með okkur ferskt íslenskt hráefni og tryggjum þannig að gestir okkar kynnist þeim afurðum sem við erum með á boðstólum. Ég segi hiklaust að á básnum okkar sé rekið veitingahús á heimsmælikvarða.“

Allt það nýjasta í greininni
Jóhannes Már segist reyna að gefa sér tíma til að skoða nokkra bása.
Veitingastaður í heimsklassa: Einar Geirsson og Árni Þór Árnason á RUB 23„ Sjávarútvegurinn er spennandi atvinnugrein og fjölþætt, maður sér það svo vel á slíkum sýningum. Þótt dagskráin hjá mér sé nokkuð þétt bókuð, gefst yfirleitt tími til að rölta um svæðið og heilsa upp á önnur fyrirtæki, sem er nauðsynlegt. Tækniframfarir eru örar í greininni og hérna í Barcelona er allt það nýjasta,“ segir Jóhannes Már Jóhannesson sölustjóri hjá Ice Fresh Seafood.