Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, telur að heildarfjárfesting vegna endurnýjunar ísfisktogaraflota fyrirtækisins sé 55 til 65 milljónir evra – 6,3 til 7,5 milljarðar íslenskra króna.
Á aðalfundi Síldarvinnslunnar fyrir skemmstu komu fram þau áform fyrirtækisins að ráðast í það stóra verkefni að endurnýja ísfisktogaraflota sinn – en eins og kunnugt er stendur yfir mikil endurnýjun í fiskiskipaflotanum hjá fjölda fyrirtækja. Þau skip sem koma ný til landsins á þessu ári verða ekki talin á fingrum beggja handa.
Skipin sem hér um ræðir eru Barði NK, Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE. Togararnir Barði og Gullver eru gerðir út af Síldarvinnslunni en Vestmannaey og Bergey eru gerðir út af dótturfélaginu Bergur-Huginn. Barði NK var smíðaður árið 1989, Gullver árið 1983, en Vestmannaey og Bergey árið 2007.
Byrjuðu í fyrra
Undirbúningur að þessu verkefni er löngu hafinn og liður í því var sala Bjarts NK til Íran á síðasta ári og Barða NK til Rússlands. Blængur NK, áður Freri RE, hefur verið endurbyggður sem öflugur frystitogari og var hann tekinn í notkun fyrr á þessu ári.
Gunnþór hefur sagt að fjárfestingarverkefni sem þetta sé stór ákvörðun en um stórt framfaraskref sé að ræða – stefna Síldarvinnslunnar sé auk þess skýr; fyrirtækið ætlar sér að vera í fremstu röð hvað varðar hagkvæmni í rekstri, meðhöndlun afla og starfsumhverfi sjómanna.
Samherji er stærsti einstaki hluthafi Síldarvinnslunnar, en hefur líkt og mörg önnur útgerðarfélög hafið mikla endurnýjun á skipakosti sínum. Tvö þeirra eru ísfisktogararnir Björgúlfur EA sem kom til Dalvíkur á dögunum og Björg EA sem er væntanlegt í haust.
Eftir að koma í ljós
Fiskifréttum lék forvitni á því að vita hvort horft væri til þessara skipa og samstarfs við Cemre-skipasmíðastöðina í Tyrklandi sem smíðar Samherjaskipin – eða einhverra annarra skipa sem koma til landsins þessi misserin.
„Við erum ekkert endilega að horfa á teikningar þeirra skipa sem eru kominn, það verður að sjálfsögðu skoðað ásamt öðru,“ segir Gunnþór.
svavar@fiskifréttir