Til eru yfir 100 mismunandi tegundir af sæeyrum sem á ensku heita abalone. Sæbýli í Grindavík hefur þróað sinn eigin klakstofn af bæði Californian Red og Ezo sæeyrum sem upprunnin eru við strendur Japan. Afurðirnar verða seldar undir vörumerkinu Aurora Abalone. Það hefur verið vandað til verka við uppbyggingu eldisins enda eftir miklu að slægjast. 1.000 tonn af sæeyrum skila sama rekstrarhagnaði og 30.000 tonn af laxi.

Villt sæeyru eru sótt í sjóinn við Japan, Mexíkó og Kína og í Suður-Afríku, Nýfundnalandi og Ástralíu er mikið eldi á sæeyrum. Í náttúrunni líður þeim best undir steinum í fjörunni og koma svo undan þeim á næturnar til að nærast á þara. Þessar tegundir eru þó í mikilli hnignun í sínu náttúrulega umhverfi, meðal annars vegna ofveiði og umhverfisbreytinga.

Varkár í áætlunum

Vala Valþórsdóttir, forstjóri Sæbýlis, segir heimsmarkað fyrir sæeyru stóran. Eldið hér á landi búi við þann kost að vera landfræðilega vel staðsett með tilliti til markaða. Bandaríkjamarkaður er mjög stór og þar er spáð 19% vexti á næstu árum. Þess utan fæst þar mjög hátt verð fyrir hágæða sæeyru.

„Við erum varkár í áætlunum okkar og byggjum á því að fáist 60 dollarar fyrir kílóið. Hins vegar sýna markaðsaðstæður að hágæða sæeyru, eins og okkar, standa undir hárri verðlagningu og geta selst fyrir allt að 250 dollara á kílóið í Bandaríkjunum. Á Vesturströndinni eru framleidd 150 tonn á ári en framleiðslan fer öll til neyslu á svæðinu. Þannig er þetta víðast, nær allt sem er framleitt fer til neyslu í nærumhverfinu. Hver veit nema þetta verði líka með þessum hætti hjá okkur þegar fram líða stundir – að öll okkar framleiðsla verði fyrir innanlandsneyslu og ekki ein skel fari til útflutnings,“ segir Vala, meira þó í gríni en alvöru. Ef þannig ætti að fara þyrftu Íslendingar jú að torga um 200 tonnum af sæeyrum á ári.

Hvað útflutningsmarkaði varðar horfir Sæbýli ekki síst til austurstrandar Bandaríkjanna og Flórídaskagans en líka til Evrópu og Kína sem fríverslunarsamband er við. Kína er reyndar stærst allra landa í framleiðslu á sæeyrum. Þangað er líka flutt inn mikið magn frá Ástralíu, Suður-Afríku og Mexíkó. Innflutningur frá Japan, sem áður var mikill, lagðist af í kjölfar kjarnorkuslyssins við Fukushima 2017. Japönsku ezo sæeyrun höfðu selst á um 200 dollara kílóið í Kína.

Sæeyru eru með dýrustu eldistegundum heims.
Sæeyru eru með dýrustu eldistegundum heims.

Sæeyru eru lindýr af flokki snigla og eru viðkvæm fyrir hitasveiflum. Súrnun sjávar hefur einnig haft slæm áhrif á marga stofna. Til marks um þróunina í veiðum má geta að fyrir tíu árum veiddu Japanir um 20 þúsund tonn á ári en nú um 5.800 tonn á ári. Sæbýli hefur sérstöðu á efri lögum markaða fyrir hágæða framleiðslu sem byggir á því að sæeyrun eru alin við kjörskilyrði í lokuðu kerfi. Fyrir vikið er mikill stöðugleiki og fyrirsjáanleiki í framleiðslunni og hún er varin fyrir sjúkdómum. Skelin er auk þess hrein og laus við hrúðurkarla eða gróður sem sest gjarnan á hana úti í náttúrunni. Það skiptir neytendur líka máli að hjá Sæbýli eru engin efni eru notuð til sjúkdómavarna við framleiðsluna. Sjórinn í eldinu er hreinn – síaður í gegnum hraun. Hann kemur 32° heitur frá jarðvarmavirkjun HS Orku. Sæbýli kælir hann niður í 20°. Eitt nýlegt dæmi um alvarleika sjúkdóma og áfalla sem upp kunna að koma í sæeyrnaeldi er frá Suður-Afríku þar sem 400 tonna framleiðsla eyðilagðist með öllu þegar rauðþörungar komust inn í eldið. Slíkt getur ekki gerst í lokuðu kerfi Sæbýlis. „En stærsta samkeppnisforskotið sem lokaða kerfið veitir okkur er að við getum leyft okkur að hafa framleiðslutímann lengri en aðrir framleiðendur. Það er nefnilega ekki einungis tegundin sem skiptir miklu máli á þessum markaði heldur líka stærðin. Við getum leyft okkur að fara með sæeyrun okkar upp í um og yfir 100 grömm og fengið þar með 30-50% hærra verð,“ segir Vala.