Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út reglugerð um sérstaka úthlutun aflaheimilda til frístundaveiðiskipa á yfirstandandi fiskveiðiári og er hún birt á vef Fiskistofu.
Heimilt er að úthluta allt að 300 lestum af óslægðum botnfiski sem skiptast þannig: maí 40 lestir, júní 70 lestir, júlí 120 lestir og ágúst 70 lestir. Komi ekki til úthlutunar viðmiðunarafla hvers mánaðar bætast ónýttar heimildir við viðmiðunarafla næsta mánaðar. Heimildir sem ekki hefur verið úthlutað 31. ágúst 2011 falla niður.
Verð á aflaheimildum skal vera 80% af meðalverði í viðskiptum með aflamark, sem birt er á vef Fiskistofu, í lok dags daginn áður en viðskipti fara fram.
Aflaheimildir sem úthlutað er samkvæmt reglugerð þessari er einungis heimilt að nýta til frístundaveiða og eru þær framseljanlegar á milli frístundaveiðiskipa.