Hlutur pottakerfisins í nýja fiskveiðilagafrumvarpinu eykst með auknum heildarafla. Ef þorskaflinn fer upp í 280.000 tonn við lok 15 ára samningstímans verður hlutur pottanna 28% af heildarþorskaflaheimildum en hann er nú 8%. Miðað við sömu forsendur munu 20% af öllum aflaheimildum í þorskígildum vera komin í pottakerfin eftir 15 ár en í dag er sambærileg tala 4,5%.

Þetta kemur fram í útreikningi sjávarútvegsráðuneytisins um þróun aflaheimilda í  nýju veiðistjórnarkerfi.

Mikil og almenn óánægja ríkir meðal útvegsmanna og sjómanna með nýja frumvarpið, eins og fram kemur í viðtölum í Fiskifréttum í dag. Jónas Jóhannsson útgerðarmaður neta- og dragnótabátsins Geirs ÞH frá Þórshöfn segir að með þessum aðgerðum sé verið að útrýma einyrkjum í útgerð. Þorvaldur Garðarsson trillukarl í Þorlákshöfn segir að þessi áform muni draga úr arðsemi og fjárfestingum í greininni. Sævar Gunnarsson formaður Sjómannasambands Íslands segir að fyrirhuguð tilfærsla veiðiheimilda frá skipum með aflahlutdeild í pottana verði til þess að sjómennska verði að hlutastarfi.

Sjá nánar í Fiskifréttum sem komu út í dag.