KAPP ehf. var í sama bás og Sæplast á sjávarútvegssýningunni í Pétursborg enda fer vöruúrval þessara tveggja, íslensku fyrirtækja ágætlega saman; Sæplast framleiðir ker sem meðal annars nýtast undir hráefni og ís sem framleiddur er í ísþykknivélum KAPP undir heitinu Optim-ice. Freyr Friðriksson framkvæmdastjóri stóð vaktina fyrir KAPP og sagði mikil tækifæri framundan í sölu á ísþykknivélum fyrir smærri og stærri skip í Rússlandi sem og landvinnsluna.

[email protected]

Þetta var í þriðja sinn sem KAPP tók þátt í sjávarútvegssýningum í Rússlandi á jafnmörgum árum og segir Freyr markaðinn rísandi.

„Síðasta ár var okkur mjög gjöfult og yfirstandandi ár lofar mjög góðu. Við erum þegar komnir með fjórar góðar sölu á þessu ári og meira er í farvatninu. Við vinnum með öflugum, rússneskum umboðsaðila, Moretron, sem staðsettur er á þremur svæðum í Rússlandi, þ.e. í Pétursborg, Murmansk og Shakalin-eyju í Austur-Rússlandi. Þeir hafa náð góðum sölum fyrir okkar hönd og vonandi verður framhald á því,“ segir Freyr.

Á bás Kapp var ísvél í gangi og framleiddi ís sem úti á sjó eða í landvinnslunni umlykur hráefnið. Freyr hafði tekið að sér að kæla bjórflöskur fyrir íslenska kollega þótt hráefnið sem vélin kælir sé yfirleitt fiskur. Hann segir Rússana hafa hrifist af þessari tækni enda um mjög hraða og viðurkennda kælingaraðferð að ræða. Vélarnar koma af mörgum stærðum en sýningarvélin var eins sílindra vél. KAPP framleiðir allt upp í 8 sílindra vélar sem hafa farið í rússneska togara undanfarið. Þær hafa framleiðslugetu frá tæpum 2.000 lítrum á klukkustund með 40% ísþykkni og upp í 6.500 lítra með 10% þykkni. Allur gangur er á því hvaða þykkni hentar best og ræðst það m.a. af því hvaða tegundir eru veiddar. Með vélunum taka menn yfirleitt kör með tappa sem losar saltvatnið úr ísnum. Framleiðslulínan hjá KAPP hentar smáum skipum og stórum og einnig landvinnslunni.

Hönnun og framleiðsla á Íslandi

„Í nýjustu vélunum eru forkælar sem bjóða upp á meiri afköst í framleiðslu en áður. Einnig eru við með nýjung sem er sjálfvirkir lokar sem skammta með sjálfvirkum hætti sama ísmagn í hvert kar. Magnið er stillt í Siemens hugbúnaði sem fylgir vélunum.“

Vélarnar eru að öðru leyti framleiddar og hannaðar á Íslandi, að undanskildum mótorunum sjálfum sem eru þýskir. Einnig framleiðir KAPP forkæla sem kælir niður vatn í landvinnslu. Þeir kæla niður vatn úr t.d. sjö gráðum í 0 gráðu sem er kjörhitastig fyrir vinnsluna. Þannig rofnar kælikerfið aldrei frá veiðum til vinnslu. Þetta skili sér í lengra hillulífi fyrir afurðir fyrirtækja í verslunum.

„Við sjáum aukningu hérna í Rússlandi á hverju ári. Á þessu ári er allt útlit fyrir alltað 20% söluaukningu hingað til Rússlands. Næsta vor bætast við tveir stórir pakkar fyrir bolfiskvinnslur sem eru í byggingu hér í Rússlandi. Fyrirspurnirnar eru líka margar. Sýningin hérna er ákveðinn vendipunktur oft í viðskiptunum. Það er ánægjulegt hvað það hafa margir lagt leið sína á básinn okkar. Hugsanlega verður skrifað undir einn samning núna á þessari sýningu. Rússarnir hafa verið að átta sig á því undanfarin ár hve mikilvægt það er að halda hráefninu fersku. Þessi hugsunarháttur var ekki til staðar fyrir fjórum árum. Það er vitundarvakning í þeim efnum og eflaust hefur verklag íslenskrar útgerðar og vinnslu áhrif í þeim efnum,“ segir Freyr.