Nýsköpunartogari Bluewild útgerðarinnar í Noregi, Ecofive, hefur vakið verðskuldaða athygli og hlotið fjölda verðlauna og það áður en skipið hefur verið afhent. Verksmiðjutogarinn er hannaður og útbúinn til veiða á sem umverfisvænastan hátt og er með hátæknibúnað frá íslenskum fyrirtækjum eins og Skaganum 3X, nú Kapp Skaginn, og Vélfagi á Ólafsfirði.

Ecofive er stytting á enska heitinu Eco-Friendly Fishing Vessel. Skipið er af mörgum talið fyrirmynd um nýsköpun á sviði meðferðar á afla og orkusparnaðar. Tore Roaldsnes er eigandi Bluewild úgerðarinnar. Hann sagði þegar veitti viðtöku Nýsköpunarverðlaunanna í Noregi í ágúst í fyrra að Ecofive væri draumsýn sem nú væri að verða að veruleika. „Draumsýn um sjálfbærari veiðar með minni orkunotkun, afurðagæði og 100% nýtingu aflans.“

Togari Bluewild er hannaður af Ulstein Design & Solutions AS og smíðaður af Westcon skipasmíðastöðinni í Noregi.
Togari Bluewild er hannaður af Ulstein Design & Solutions AS og smíðaður af Westcon skipasmíðastöðinni í Noregi.

Þegar aflinn kemur um borð í þetta 73,2 metra langa skip, fer hann ekki um togdekkið heldur er fluttur lifandi í tanka sem eru fyrir neðan sjólínu. Þaðan fer fiskurinn í blóðgun. Aflinn er svo færður á efra verksmiðjudekkið með yfirþrýstingslosun sem kemur í veg fyrir hið dæmigerða tjón sem getur orðið við annars konar dælingu. Þetta er ný tækni sem hefur ekki verið prófuð áður en megintilgangurinn er að koma í veg fyrir að fiskurinn merjist og blæði.

Hluti botnfiskaflans verður unninn í UNO fiskvinnsluvél frá Vélfagi, sem hausar fiskinn, roðdregur hann og flakar og beinhreinsar. Skaginn 3X, nú Kapp Skaginn, gerði samning um heildarvinnslulausn í skipið í ágúst 2022. Heildarverðmæti samningsins er rúmlega einn milljarður króna. Skipið verður líka gert út á rækjuveiðar og verður í skipinu heildstæð rækjuvinnslulína frá Vónin í Færeyjum sem vinnur soðna lausfrysta rækju sem og frysta iðnaðarrækju til frekari framleiðslu í landi.