Stofnvísitala ýsu hefur farið lækkandi undanfarin ár og er nú einungis rúmlega fjórðungur af meðaltali áranna 2003-2007 þegar hún var í hámarki, að því er fram kemur í niðurstöðum úr vorralli Hafrannsóknastofnunar.

Lengdardreifing ýsunnar sýnir að allir lengdarflokkar eru undir meðallagi í fjölda. Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að allir ýsuárgangar eftir 2007 séu lélegir, en mest fékkst af 35-50 cm ýsu sem flestar eru fjögurra ára.

Ýsan veiddist á landgrunninu allt í kringum landið þannig að minnkandi magn ýsu undanfarin ár virðist ekki bundin við einstök svæði. Hins vegar hefur útbreiðslan breyst mikið frá árunum fyrir aldamót þegar lítill hluti ýsunnar fékkst fyrir norðan og austan. Holdafar ýsunnar var í meðallagi bæði fyrir sunnan og norðan land, en lifrarstuðull með því lægsta sem mælst hefur. Samt sem áður var meiri loðna í ýsumögum en undanfarin þrjú ár, segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun.