„Það hafa verið þrír fundir núna,“ segir Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri sjávarútvegs og fiskeldis í atvinnuvegaráðuneytinu. „Ísland hefur lagt áherslu á að ná jafnvægi í þennan samning, það er að segja að hvor þjóðin um sig fengi nokkurn veginn sömu verðmætin út úr honum. Við vonum bara að Færeyingar telji það líka affærasælast til lengri tíma.“
Ekkert hefur verið ákveðið um næsta fund, en Jóhann segir augljóst að ef ekki takast samningar muni allir tapa á því.
Bráðabirgðasamningur sem gerður var snemma á þessu ári rennur út um áramótin þannig að skammur tími er til stefnu.
Fiskveiðisamningar við Færeyjar hafa skilað Færeyingum um þremur milljörðum íslenskra króna árlega í aflaverðmæti en á móti hefur kolmunnaveiðin við Færeyjar verið Íslendingum mikils virði, ekki síst Austfirðingum.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra sagði á opnum fundi um sjávarútvegsmál á Eskifirði í síðustu viku tíma kominn til að Íslendingar og Færeyingar skipti á sléttu í þessum samningum.
„Ef það næst ekki þurfum við að endurmeta stöðuna og mögulega taka erfiðar ákvarðanir ef ekki um semst,“ var haft eftir Kristjáni á fréttavef Austurfrétta.