Úthafskarfaveiðar hafa gengið sérstaklega vel á þessu vori, afli góður og veðurfar yfirleitt hagstætt. Aflaheimildir námu rúmum 8.500 tonnum og með einni undantekningu kláruðu allar útgerðir sinn skammt fyrir sjómannadag sem er óvenjulegt, að því er fram kemur í Fiskifréttum í dag.
Aðeins Samherji átti eftir dálítinn kvóta og fór Snæfell EA út í byrjun vikunnar til þess að sækja hann. Að sögn Hákons Guðmundssonar hjá skipaþjónustu Samherja á útgerðin eftir aflaheimildir sem jafngilda um 8.000 kössum.
Heildarúthafskarfakvótinn hefur verið að skreppa saman á undanförnum árum í samræmi við samþykkt veiðiþjóðanna, annarra en Rússa, til þess að vernda stofninn. Á síðasta ári var úthafskarfakvóti Íslendinga tæp 10.000 tonn en ekki náðist að veiða nema 5.900 tonn vegna tregra aflabragða.