Nýjar reglur hafa tekið gildi í Færeyjum sem skyldar þarlend fiskeldisfyrirtæki til að birta heildstæðar upplýsingar um eldið í rauntíma. Regluverkið er fyrst og síðast hugsað sem eftirlit með laxalús, en upplýsingarnar sem verða aðgengilegar eru þó mun fyllri og varða ýmsa þætti eldisins sem tengist daglegu eftirliti. Áþekkur opinn gagnagrunnur er til skoðunar hér á landi hjá stjórnvöldum.
Reglurnar tóku gildi í lok síðasta árs, en miðillinn kyst.no fjallaði um málið nýlega þar sem meðal annars var rætt við yfirmann Matvælastofnunar Færeyja, Bárð Enni.
Samkvæmt þeim verða umfangsmiklar upplýsingar um eldið birtar á þar til gerðri netsíðu á vegum stjórnvalda. Þar er hægt að fá upplýsingar um fyrirtækin, eldisstöðvar þeirra og staðsetningar einstakra kvía, leyfishafa, tegundir eldisfisks, fjölda laxa í kvíum og lífmassa auk upplýsinga um lúsatalningarnar sem eru tíðar og nákvæmar. Eins um lyfjanotkun til að meðhöndla lúsina þegar þess er talin þörf, en jafnframt lyfjanotkun vegna sjúkdóma komi þeir upp. Þessar upplýsingar skulu birtar strax, eða aldrei síðar en sjö dögum eftir að þær liggja fyrir. Eins eiga þær að vera aðgengilegar í fimm ár hið minnsta.
Fyrirmyndin norsk
Fyrirmyndin er fengin frá Noregi þar sem laxalúsin er og hefur verið það vandamál í eldinu sem reynst hefur erfiðast að leysa, og kostar eldisfyrirtækin stórfé. Þess utan er vandinn vegna laxalúsarinnar meiriháttar umhverfisvandamál vegna villtra stofna laxfiska í nágrenni strandeldisstöðva.
Bæði í Noregi og Færeyjum er stuðst við svokallað „umferðarljósakerfi“, þ.e. kerfi þar sem litastuðull er gefinn fyrir stöðu lúsar á hverjum stað. Í Noregi t.d. eru fiskeldisstöðvar með rauðum lit í þeirri stöðu að mega ekki stækka við sig, og ef laxalús er þráfaldlega yfir mörkum er viðkomandi gert að minnka við sig. Norsku ströndinni er deilt upp í 13 framleiðslu svæði og allar eldisstöðvar innan rauða svæðis eiga á hættu að sæta ákvæða um minni framleiðslu. Gulur leyfir óbreytt ástand en eldisstöðvar sem fá grænan lit, sem þýðir að laxalús er undir mörkum, mega bæta við sig og geta menn sótt um og fengið allt að 6% auka.
Þrír sénsar
Í Færeyjum er þetta ekki ósvipað. Byggt á sérstöku stigakerfi eru stöðvar undir það settar að ef í þrígang mælist of mikið af laxalús þá skal slátra öllum laxi innan tveggja mánaða, sama hvað kvíarnar eru margar. Eins þarf að fara fram sérstök athugun á því hvað óhætt er að setja út mikið af seiðum á því eldissvæði, og allt eins líklegt að það magn sé verulega skert miðað við það magn sem áður var í sjó, og olli vandamálum með lús.
Margt er ólíkt með kerfunum tveimur, en í Færeyjum má vera meira af lús en í Noregi áður en gripið er inni í. Við það má bæta að kerfið er þróað og sett upp í nánu samstarfi við fiskeldisfyrirtækin í Færeyjum. Ekki er annað að sjá en að dýravelferðarsjónarmið ráði för í Færeyjum. Ólíkt Noregi lúta áhyggjur manna ekki að viðkomu villtra stofna laxa og sjóbirtinga.
Í farvatninu
Hér heima hefur það verið í farvatninu um skeið að byggja upp áþekkan gagnagrunn, að sögn Gísla Jónssonar, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun.
„Við sem komum að opinberu heilbrigðiseftirliti höfum hvatt til þess að sú reglubundna vöktun sem á sér stað hjá sjókvíaeldisstöðvunum, t.d. með lúsinni, verði gerð opinber. Þetta er allt í ákveðnum farvegi í ráðuneytinu og búist er við því að ráðherra leggi fram frumvarp núna í febrúar eða mars, en það þarf ákveðna lagabreytingu og uppfærslu á reglugerð svo þetta verði ófrávíkjanleg regla. Síðan er bara að finna með hvaða hætti best er að vista þessar upplýsingar og hver ber ábyrgð á að uppfæra þær á t.d. heimasíðu Matvælastofnunar,“ segir Gísli og bætir við að eldisfyrirtækin sjálf séu síður en svo mótfallin því að gögnin séu gerð opinber með þessum hætti.
Fulltrúar Matvælastofnunar funduðu með starfshópi sem vann skýrslu um framtíðarskipan í fiskeldi sem skilaði af sér í sumar. Útfærsla slíks gagnabanka er því til skoðunar, en Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, hefur kynnt hugmyndir sínar um að leggja fram frumvarp um fiskeldismál á vordögum.