Aldrei hafa fleiri starfað við fiskeldi hér á landi og á þessu ári og að sama skapi hafa atvinnutekjur í greininni aldrei verið meiri. Þetta má sjá í tölum um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur sem Hagstofan birtir mánaðar og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa tekið saman.
Að jafnaði fengu um 670 einstaklingar launagreiðslur í fiskeldi á mánuði hverjum á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 590 manns á sama tímabili í fyrra. Þetta jafngildir fjölgun upp á tæp 15% milli ára. Sama á við um atvinnutekjur. Á fyrstu 9 mánuðum ársins námu atvinnutekjur í fiskeldi tæplega 4,8 milljörðum króna sem er um 25% aukning að nafnvirði milli ára en um 16% að raunvirði.
„Áhrif greinarinnar eru margfalt meiri í efnahagslegu tilliti en umfang hennar, eitt og sér, gefur til kynna. Þannig skapast fjölmörg störf í öðrum atvinnugreinum, sem eru beint eða óbeint háð starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Afleidd og óbeinu áhrif greinarinnar eru hvað sýnilegust á Vestfjörðum og á Austurlandi þar sem fiskeldi er hvað umsvifamest um þessar mundir. Þar hefur til dæmis fjölbreytni atvinnulífs aukist, fólki fjölgað og aukið líf færst yfir á fasteignamarkaðinn. Þetta má rekja beint til aukinna umsvifa í starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna sjálfra og óbeint til afleiddra áhrifa sem eldið hefur á aðrar atvinnugreinar,“ segir í samantekt SFS.
Á fyrstu tíu mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í tæpa 38 milljarða króna sem er 24% aukning frá sama tímabili í fyrra en um 29% ef tekið er tillit til gengisbreytinga. Þá hefur fjárfesting í fiskeldi aldrei verið meiri en á undanförnum árum. Aukning undanfarinna ára hefur verið drifin áfram af framleiðslu á laxi úr sjókvíaeldi en nú eru horfur á verulegri aukningu í framleiðslu á landi, sér í lagi á suðvesturhorni landsins.