„Það hefur gengið ljómandi vel en við erum alltaf að leita að ýsu. Það er nógur þorskur. En það hefur svo sem gengið vel þarna við Langanesið í ýsunni,“ segir Sævar Þór Ásgeirsson, skipstjóri á þrjátíu tonna línubátnum Háey I sem gerður er út frá Raufarhöfn og er í eigu GPG Seafood ehf. á Húsavík.

„Eftir að þeir bættu við ýsu kvótann erum við alltaf að reyna að blanda þetta meira og stemma okkur af í þorskinum. Það er búinn að vera óvenju stór þorskur fyrir utan Norðurland, þarna og alveg við Grímsey. Það er bara alls staðar stór þorskur þarna,“ heldur Sævar áfram. Í febrúar hafi verið lagt við Grímsey.

„Það var alveg rosalegt fiskerí“

„Við fengum tuttugu tonna lagnir sem við máttum ekkert og fórum bara úr því. Þetta var fimm til sex kílóa þorskur í meðalþyngd, það var alveg rosalegt fiskerí,“ segir Sævar sem kveðst ekki vita hvernig eigi að túlka þetta mikla magn af stórum þorski um þessar mundir.

„En mín reynsla núna er sú að þorskurinn er mikið stærri hérna fyrir norðan heldur en var fyrir tveimur til þremur árum. Þeir voru að segja mér í vinnslunni að þau hafi aldrei fengið svona stóran þorsk hérna fyrir norðan land í vinnsluna, ekki svona jafn stóran. Fimm til sex kílóa meðalþyngd túr eftir túr af þorski, það bara þekktist ekki hérna fyrir norðan fyrir nokkrum árum,“ segir Sævar.

Vinna smærri þorskinn á Raufarhöfn

Aðspurður segist Sævar telja ánægju í landi með þennan stóran þorsk þó það sé ekki algilt. „Það er reyndar misjafnt. Við erum oft spurðir hvort við getum ekki fundið smærri þorsk því þegar við fáum stóran þorsk þá vilja þeir fá smærri þorsk í vinnsluna á Raufarhöfn. Því þeir taka stóra þorskinn á Húsavík og undir fimm kílóa á Raufarhöfn,“ segir Sævar sem kveður hafa gengið þokkalega að verða við þessum óskum.

„Maður er nú bara feginn að fá að fara í þorsk og þurfa ekki alltaf að vera að leita að ýsunni eða einhverju öðru.“ Samtals átta manns eru á Háey, tvær fjögurra manna áhafnir sem skiptast á og nú er hin áhöfnin að sögn Sævars til dæmis að leita að steinbít við Grímsey. „Þegar það fer að saxast á þorskkvótann vilja þeir að við förum að veiða eitthvað annað.“

Væn ýsa við Langanes

Háey. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson
Háey. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Sævar segir ýsuna við Langanes vera mjög stóra þegar hún komi.

„Meðalþyngdin á ýsunni var al veg um þrjú kíló í bestu róðrunum. Síðast vorum við með 120 tonn á tveimur vikum og það voru 35 tonn af því ýsa þannig að við erum að fá þrjátíu, fjörutíu prósent ýsu í þessu úthaldi sem er bara mjög gott.“

Háey landar mest á Raufarhöfn en einnig á Húsavík. „Þeir vilja helst hafa okkur á Raufarhöfn, sérstaklega núna þegar verið er að taka mikinn netafisk á Húsavík. Við vorum mikið á Húsavík í vetur þegar voru miklar austanáttir og ekkert veður á Raufarhöfn. Menn eru að stíla inn á að geta róið inn á Skjálfanda í brælunum. Svo höfum við fært okkur á Raufarhöfn þegar það er komið veður en það hefur verið allt í lagi fiskirí í vetur á Skjálfanda líka. Menn hafa verið að fá ýsu alveg inn eftir öllu.“

Fram undan segir Sævar einfaldlega að halda áfram að veiða og reyna að blanda aflanum meira. „Svo er bara sumarfrí. Þetta gengur sinn vanagang.“