Öryggisstjórnunarkerfið Alda, sem er hannað til að samræma öryggismál um borð í fiskiskipum og auka öryggisvitund sjófarenda, fékk hvatningarverðlaun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á ársfundi samtakanna í byrjun mánaðar. Alda, sem Gísli Níls Einarsson hefur unnið ötullega að, er hannað í samstarfi við íslenska sjómenn og útgerðir. Fjallað var um útrás öryggisstjórnunarkerfisins í Fiskifréttum síðasta haust.

Alda er í raun app í síma og tölvu sem heldur utan um skipulag og framkvæmd öryggismála um borð í skipum. Gísli segir að mjög vel hafi gengið að fá útgerðir í lið með Öldu. Stefnt sé að útflutningi á Öldu og erlendar útgerðir hafi nú þegar sýnt kerfinu mikinn áhuga og Gísli segir að sóknarfæri þar séu vissulega fyrir hendi. Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu og þróun fyrirtækisins á komandi árum en Alda er enn ein staðfesting þess hvaða árangri sprotafyrirtæki geta náð í samstarfi við öflugan sjávarútveg.