Allar álaveiðar eru nú óheimilar í sjó, ám og vötnum á Íslandi nema að fengnu sérstöku leyfi frá Fiskistofu til álaveiða til eigin neyslu. Öll sala á íslenskum ál og álaafurðum er jafnframt bönnuð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fiskistofu þar sem segir einnig að stofnunin getur veitt leyfi til takmarkaðra álaveiða til eigin neyslu. Leyfi eru bundin því skilyrði að allur afli sé skráður og að Fiskistofu verði sendar árlega skýrslur um sókn og afla.

Bann við álaveiðum hefur legið í loftinu um nokkurn tíma, en Fiskistofa fór þess á leit árið 2015 að lögum yrði breytt á þá vegu að slíkt bann væri mögulegt. Slík lagasetning var kláruð á síðasta þingvetri. Umsagnir Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og fleiri voru jákvæðar gagnvart mögulegu veiðibanni. Í umfjöllun Fiskifrétta í júní 2017 komu hins vegar fram þau sjónarmið að veiðibann á Íslandi væri ónauðsynlegt, þrátt fyrir að slík bönn séu víða í gildi og álastofnar mun fáskipaðri en þeir voru á árum fyrr.

Engin þörf á veiðibanni

Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra, sem hefur manna mest rannsakað stofninn hérlendis, sagði strax þegar málið var upphaflega lagt fram á Alþingi að ekkert benti til að sá hluti álastofna sem héldi sig hér á landi væri hætta búin. Þetta byggir hann á vöktun og kortlagningu á glerálagöngum á Íslandi frá árinu 1999 auk margvíslegra annarra rannsókna á álum, svo sem á útbreiðslu, búsvæðum, vistfræði, tegundasamsetningu, nýtingarmöguleikum og fleira.

Einstök lífssaga

Lífssaga áls á sér fá eða engin fordæmi. Hann hrygnir í Þanghafinu djúpt austur af Flórídaskaganum. Þar eru tvær aðskildar tegundir ála, Evrópuáll og Ameríkuáll. Lirfur ála berast þaðan með straumum til ýmissa landa við Norður-Atlantshafið. Ameríkuállinn fer norður og vestur en Evrópuállin austur og norður.

Állinn á sér þrjú lífsskeið eftir lirfustigið. Seiðin sem koma að landi eru eins ár gömul og nefnast þá glerálar. Eftir að áll hefur valið sér búsvæði, aðallega í lækjum og vötnum, nefnist hann guláll og er hann á því stigi mestan hluta ævinnar. Hann verður kynþroska 7 til 16 ára og umbreytist þá í bjartál. Þegar kynþroska er náð gengur hann til sjávar og syndir í Þanghafið til hrygningar og deyr að henni lokinni.

Finnst í öllum landshlutum

Glerállinn kemur mest hingað til lands á tímabilinu 10. maí til 10. júní, að sögn Bjarna. Hann sagði að ála væri að finna í öllum landshlutum, búsvæði þeirra væru fjölbreytt og lífshættir ólíkir. Fram kom hjá Bjarna að allir álar færu ekki upp í ferskvatn. Hluti af þeim lifa við ströndina og fara aldrei í ferskt vatn og lifa annað hvort í fullsöltum sjó eða ísöltu vatni.

Állinn lætur yfirleitt lítið fyrir sér fara. Hann lifir á fjölbreyttu fæði; smádýrum og flugum, hornsíli og vatnabobbum. Þegar hann kemur hingað er hann um fimm til sjö sentímetrar að lengd en getur farið upp í 70 til 120 sentímetra fullvaxinn.

Staðan betri á Íslandi

Evrópuállinn er á lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Þar spila margir þættir inn í, svo sem ofveiði, sérstaklega á glerál, búsvæði áls hefur verið skert eða eyðilagt, lokað á farleiðir og sjúkdómar og sníkjudýr hafa herjað á stofnana. Bjarni sagði að glerálagöngur í Evrópu væru víðast aðeins 1-5% af því sem þær voru hér á árum áður og við það bættist að lítill hluti þeirra kæmist upp og lifði til að komast aftur á hrygningarslóð.

Staðan á Íslandi er betri, var hins vegar mat Bjarna, enda margt ólíkt með lífsháttum ála á Íslandi og annars staðar þar sem hann er að finna. Ytri aðstæður hafa ekki breyst mikið hér við land fyrir utan hlýnun vegna loftslagsbreytinga.

„Við erum ennþá laus við marga sjúkdóma og sníkjudýr sem herja á álastofna í Evrópu. Ekki hefur verið þrengt eins mikið að búsvæðum álsins hér og veiðar eru litlar sem engar. Rannsóknir mínar gefa vísbendingar um að staða álsins sé góð á Íslandi og að álastofninn hér sé á uppleið,“ sagði Bjarni.