Bandaríkjamenn leyfa veiðar á 1,25 milljónum tonna af alaskaufsa í Beringshafi á þessu ári sem er veruleg aukning frá árunum á undan. Á síðasta ári var kvótinn 813 þúsund tonn sem var minnsti afli í 32 ár.
Veiðar á alaskaufsa byggjast mikið upp á einstökum sterkum árgöngum og voru 2006 og 2008 árgangarnir sérlega góðir.
Helmingurinn af afla Bandaríkjamanna af alaskaufsa er unninn í súrími og hefur eftirspurn eftir þeirri vöru á Evrópumarkaði farið vaxandi.
Alaskaufsinn í Norður-Kyrrahafi er skyldur ufsanum í Atlantshafi. Alaskaufsinn er stærsti hvítfiskstofn í heimi. Veiðarnar fara að stærstu leyti fram í Beringshafi og Okhotskhafi. Auk Bandaríkjamanna stunda Rússar veiðar á þessum fiski í stórum stíl og veiddu t.d. rösklega 1,7milljónir tonna af honum á síðasta ári.