Veiðar á Alaskalaxi hófust formlega í þessari viku. Söluhorfur eru góðar og sagt er að kaupendur bíði í röðum til að kaupa allan þann lax sem þeir geta komið höndum yfir, að því er segir á fréttavefnum adn.com í Alaska.
Sérfræðingar í markaðsmálum telja að markaður fyrir laxinn sé jafngóður eða betri en hann var á síðasta ári. Markaðsaðstæður eru taldar góðar þar sem eldislax annar ekki eftirspurn auk þess sem villtur lax hefur forskot á markaðnum.
Á síðasta ári veiddust um 170 milljónir laxa í Alaska að aflaverðmæti 534 milljónir dollara, eða 62 milljarðar íslenskra króna. Gert er ráð fyrir því að aflinn verði 204 milljónir laxa í ár sem yrði fimmti mesti afli frá upphafi.