Hjá Matís og samstarfsaðilum er hafin vinna við þróun aðferða til að vakta lífríkið á hafsbotni undir sjókvíum. Ætlunin er að sökkva rannsóknarbúnaði niður á hafsbotninn. Búnaðurinn verður í eins konar tunnu og í henni verða síur og greiningarbúnaður sem getur einangrað og magnað erfðaefni úr allt að fimm lífverum samtímis.

„Við verðum sem sagt með rannsóknastofu í tunnu,“ segir Davíð Gíslason verkefnastjóri. „Þetta tæki virkar þannig að það síar sjó og erfðaefni lífveranna, sem við köllum umhverfiserfðaefni, eða environmental DNA á ensku, festist í síunni.“

Tilgangurinn er að athuga áhrif uppsöfnunar lífræns efnis frá fiskeldinu, enda fylgir fiskeldi í sjókvíum jafnan mikið álag á lífríkið undir og við kvíarnar. Af þeim sökum er fiskeldisfyrirtækjum gert skylt að hvíla eldissvæði í ákveðinn tíma eftir að slátrun lýkur svo að botn geti endurheimt fyrra ástand áður en leyfi er gefið af yfirvöldum að setja aftur út seiði í sjókvíarnar.

„Lengd hvíldartíma er af þeim sökum mjög mikilvægur og hefur þetta staðið eldinu svolítið fyrir þrifum kannski. Það þarf að vera hægt að áætla hvíldartímann á milli þess sem svæði hefur verið undir fullu álagi og slátrað er úr öllum kvíum á einu svæði, hvað á að hvíla það svæði lengi þangað til það er komið aftur í ásættanlegt ástand að fara aftur af stað.“

Fimm tegundir orma

Farin verður sú leið að skoða hvernig fimm völdum tegundum af burstaormum dafna á hafsbotninum og hægt er að meta álagið út frá því hvernig þeim reiðir af.

„Sumum tegundum þessara burstaorma fjölgar tímabundið þegar lífrænt álag eykst, og öðrum fækkar þar sem þær þola ekki í svona ástand, en burstaormarnir eru valdir út frá áralöngum rannsóknum á botndýrasamfélögum við fiskeldiskvíar“.

Eins og aðrar lífverur skilja þessir ormar eftir sig erfðaefni í sjónum og með nýjustu erfðatækni er hægt að greina erfðaefnið í sjósýnum.

Davíð segir að svona tækni hafi verið notað til dæmis í Kaliforníu til að fylgjast með eiturþörungum.

„Þar eru baðstrendur þar sem eiturþörungar koma oft og þá þarf að loka. Ef börn eða einhver drekkur þetta þá verða þau oft fárveik eða jafnvel deyja. Þeir eru komnir með svona á baujum utarlega í flóa út frá svona ströndum og þá nánast flautar tækið á þá þegar þörungablóminn er að skríða inn.“

Tuttugu ára gagnasafn

Ásamt Matís taka íslenska rannsókna og ráðgjafafyrirtækið RORUM, Háskóli Íslands, Tækniháskólinn í Danmörku og Fiskeldi Austfjarða þátt í verkefninu, en styrkur til verkefnisins hefur komið frá Tækniþróunarsjóði.

Matís segir þarna um mjög umfangsmikið verkefni að ræða, sem sé einstakt að því leyti að nýtt verður 20 ára gagnasafn og hátækni til þess að nema og vakta breytingar sem geta orðið á lífríki vegna fiskeldis í sjókvíum.

„Við byggjum þetta algerlega á reynslu þeirra í RORUM. Þeir eru búnir að stunda rannsóknir í tengslum við umhverfismál fiskeldisins mjög lengi, bæði fyrir austan og fyrir vestan. Þeir hafa aðgang að miklum gögnum um lífríki íslenskra fjarða og sem hefur verið aflað með hefðbundnum aðferðum sem felst í að taka sýni með botngreip og greina botndýr úr leðjunni. Auðvitað er þetta gríðarlega tímafrek vinna og ekki síst þarf sérfræðinga sem kunna að tegundagreina dýrin. Með þessu verkefni er markmiðið að nýta líftæknilegar aðferðir svo að stytta megi þetta ferli og auka nákvæmnina. Það mun líka taka einhvern tíma að þróa aðferðirnar, aðlaga greiningarnar inni í tækinu áður en allt er klárt.“

Verkefnið er til þriggja ára en vinnan er þegar hafin og Davíð reiknar með að eftir um tvö ár eigi allt að vera orðið klárt. Þá verði hægt að hefjast handa við reglulegar mælingar og þá verði þessi tækni notuð af óháðum rannsóknafyrirtækjum til að vakta íslenskt lífríki.