Norska fyrirtækið Planktonic hefur fengið jafnvirði um það bil 200 milljóna króna í styrk frá Evrópusambandinu til hrúðurkarlaeldis. Hugmyndin er að nýta lirfur hrúðurkarla, svonefndar nauplius-lirfur, til fóðurs í fiskeldi.

Norska Fiskeribladet greinir frá þessu.

Lirfurnar eru frystar og síðan seldar til eldisfyrirtækja sem fóður.

Rune Husby, framkvæmdastjóri Planktonic, segir að hrúðurkarlar hafi orðið fyrir valinu vegna þess hve auðvelt er að frysta lirfur þeirra.

„Þetta eru harðger dýr sem þola vel frystingu. Þetta eru líka lífverur sem eru fastar á staðnum. Þú veist hvar þær eru,“ segir hann.

Fyrirtækið hefur áður fengið styrki frá Evrópusambandinu, norska rannsóknarráðin Forskningsrådet og nýsköpunarsjóðnum Innovasion Norge.

Planktonic hefur starfað í áratug, er með höfuðstöðvar í Þrándheimi, og hefur selt fóður til eldisfyrirtækja sem hafa sérhæft sig í eldi hrognkelsa og svonefndra varafiska, tegunda sem éta laxalús og eru nýttar til að hreinsa lús úr eldiskvíum.

Upphaflega var hugmyndin að finna dýrasvif sem gæti nýst sem fóður handa eldisfiskum, og niðurstaðan varð sú að lirfur hrúðurkarla hentuðu best.

Hrúðurkarlar eru all sérstakir. Þeir líta út fyrir að vera einhvers konar skeldýr en eru í reynd krabbadýr. Sagt hefur verið að þær líkist helst rækjum á hvolfi inni í kalkhylki.