Laxalús veldur tjóni í norsku laxeldi sem talið er nema sem svarar allt að 43 milljörðum íslenskra króna á ári. Reynt hefur verið að vinna bug á lúsinni með kemískum efnum en í seinni tíð hefur áherslan í auknum mæli beinst að því að losna við lúsina með því að láta annan fisk éta hana af laxinum.
Nýjar rannsóknir sýna að fiskur sem nefnist varafiskur (leppefisk) getur hreinsað kynstrin öll af lús beint af laxi. Þessi harðgerða fisktegund er talin betur til þess fallin en aðrar tegundir til að sinna þessu hlutverki.
Varafiskur finnst villtur í náttúrunni en það þarf miklu meira af honum en hægt er að veiða til þess að halda laxalúsinni í skefjum. Því hafa norsku eldisfyrirtækin Villa Organic og Marine Harvest tekið höndum saman við eldisrannsóknastöðina í Austervoll um að þróa aðferðir til þess að ala varafisk í stórum stíl, en talið er að um 15 milljónir varafiska þurfi á hverju ári í baráttunni við laxalúsina. Hópur eldisfyrirtækja áformar að framleiða 100 þúsund tonn af varafiski á þessu ári og 500 þúsund fiska á því næsta.
Laxalúsin er stærsta og kostnaðarsamasta vandamál norskra fiskeldisfyrirtækja og því til mikils að vinna auk þess sem notkun kemískra efna í laxeldinu litin hornauga af sumum umhverfissinnuðum kaupendum vörunnar.