Samkomulag hefur náðst á milli Norðmanna og Rússa um að auka þorskkvóta í Barentshafi um 20% frá yfirstandandi ári.
Þetta kemur fram á vef LÍÚ.
Kvótinn verður 525.000 tonn fyrir árið 2009. Hlutdeild Íslands í leyfilegum heildarafla þorsks er 1,85%, sem svarar til ríflega 9.700 tonna upp úr sjó.
Norðmenn og Rússar ákváðu hins vegar að fylgja tillögum Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, um 390.000 tonna loðnukvóta í Barentshafi. Þetta kom fram á vefsíðu sambands norskra útgerðarmanna, í gærkvöld.
Atle Vartdal, stjórnarmaður í Fiskebat og einn norsku samninganefndarmannanna, segir um 20% aukninguna að þar liggi traust vísindaleg rök að baki.
Því hafi verið vikið frá þeirri stjórnunarreglu fyrir næsta ár að kvóta mætti ekki auka um meira en 10%. Hann undirstrikar að reglunum verði fylgt á nýjan leik árið 2010.