Grettir sterki RE, 28 metra langur, 210 brúttótonna dráttarbátur í eigu Togskipa ehf., dró Víking AK, 81 metra, 3.671 brúttótonna uppsjávarskip Brims hf., frá Vopnafirði til Akureyrar í byrjun vikunnar þegar upp kom bilun í gírbúnaði Víkings. Skipin hrepptu gott veður og tók drátturinn rúmar 30 klukkustundir og gekk eins og í sögu. Þegar komið var inn í Eyjafjörð tók dráttarbáturinn Seifur við en hann er í eigu Akureyrarhafnar.
Alltaf alvörumál
Við reglubundna skoðun í Vopnafjarðarhöfn kom í ljós að sprunga hafði myndast í tenginu milli öxuls og gírs. Ákveðið var að tefla ekki á tvær hættur. Grettir sterki var fenginn frá Reykjavík til að draga skipið en hann er aflmesta dráttarskip landsins um þessar mundir. Það tók hann 30 klukkustundir að draga Víking, sem er næstum 18 sinnum þyngra skip, inn til Akureyrar, þar sem það er nú í slipp.
„Það er alltaf alvörumál þegar verið er að draga svo stór skip. Sumir efuðust reyndar um að þetta væri mögulegt enda virkar Grettir sterki eins og lítill depill við hliðina á Víkingi á loftmyndum,“ segir Ingimundir Ingimundarsson, útgerðarstjóri uppsjávarskipa hjá Brimi.
Ingimundur segir vissulega slæmt að missa skipið út í miðri síldarvertíð. Það hafi þó hjálpað til að síldin hafi verið alveg upp við landsteinana fyrir austan og veiðin verið góð. Þetta hafi því sjálfu sér gengið ágætlega einungis með Viðey að veiðum. Ingimundur átti von á því að Víkingur yrði kominn á veiðar á ný um miðjan næsta mánuð.
Víkingur var smíðaður í Tyrklandi árið 2015 og er því ekki nema fjögurra ára gamalt skip. Þegar viðgerð er afstaðin verður farið að skoða það hvað hafi valdið þessari bilun sem kom verulega flatt upp á útgerðina.