Hafrannsóknastofnun hefur að undanförnu fundað með hagsmunaaðilum í humar- og rækjuveiðum. Tilefnið er ástand humarstofnsins og stofns rækju í Ísafjarðardjúpi.
Það er upplifun skipstjóra og útgerðarmanna humarbáta sem og Hafrannsóknastofnunar að ástand humarstofnsins sé áhyggjuefni.
Á fundinum lýstu skipstjórnarmenn gangi humarveiða og sögðu að veiðar væru erfiðari en oft áður og veiði mun minni á hefðbundinni humarslóð. Þá kom fram að smáhumar vantaði að mestu leiti í veiðina.
Fulltrúar Hafrannsóknastofnunar kynntu mat sitt á ástandi stofnsins, sem bar ágætlega saman við framsögu skipstjórnarmanna. Fundarfólk var sammála um að meiri rannsóknir þyrfti til að skilja ástæður þess að nýliðun humars hefur hrunið á undanförnum árum.
Skipstjórnarmönnum voru kynntar nýjar aðferðir við stofnmat humars, sem ganga út á að mynda botninn og telja humarholur. Jafnframt voru niðurstöður rannsókna á veiðarfærum kynntar, sem og mat á tíðni ummerkja og magni botnsets sem þyrlast upp af völdum togveiðarfæra.
Engar veiðar
Á fundi með hagsmunaaðilum í rækjuveiðum kynntu fulltrúar Hafrannsóknastofnunar niðurstöður nýafstaðinnar stofnmælingar á rækju í Djúpinu, en byggt á þeim niðurstöðum ráðlagði stofnunin að engar veiðar yrðu heimilaðar á þessu fiskveiðiári.
Útbreiðsla rækju hefur dregist saman á undanförnum árum, á sama tíma og magn þorsks og ýsu hefur aukist mikið, sem og hitastig sjávar hækkað.
Hagsmunaaðilar töldu brýna nauðsyn á að rannsaka betur áhrif afráns og umhverfisþátta á vöxt og viðgang rækju.
Hafrannsóknastofnun kynnti einnig niðurstöður mælinga á þvernetspoka við rækjuveiðar. Niðurstöður mælinganna benda til að þvernetspokinn skilji betur út smárækju og ungviði en leggpokinn sem notaður hefur verið við rækjuveiðar hingað til. Jafnframt voru ræddar ýmsar tæknilegar lausnir á því hvernig best væri að skilja út undirmálsfisk sem veiðist sem meðafli með rækjunni, segir í frétt á heimasíðu stofnunarinnar.