Talsverð aukning hefur orðið í blóðþorrasýkingum í norskum laxeldisstöðvum á þessu ári.
Um þetta er fjallað í veftímaritinu salmonbusiness.com þar sem segir að þessi þróun hafi vakið upp að nýju áhyggjur þar í landi af öryggi gagnvart lífríkinu og rekstrinum í laxeldisiðnaðinum.
Í lok júní hafði að sögn salmonbusiness.com verið staðfestur blóðþorri í fjórtán eldisstöðvum auk þess sem tveir aðrir staðir voru til rannsóknar. Megin hluti þessara smita er sagður bundinn við fylkin Troms og Nordland þótt smit séu staðfest á mörgum öðrum svæðum. Þótt tilfellin hafi ekki enn ná metfjölda í sögulegu samhengi séu þegar orðin jafn mörg og á sama tíma árið 2021 þegar fjöldinn hafi verið orðinn 36 tilfelli áður en árið var á enda runnið.
Vara við andvaraleysi
Í greiningu sem gerð var af tölfræðifyrirtækinu Manolin er sagt varað við því að hækkandi hitastig sjávar og breytingar í eldisaðferðum geti enn aukið á hættuna á næstu mánuðum.
Þá kemur fram að blóðþorri sem hafi verið þekktur sjúkdómur í Noregi allt frá árinu 1990 eða í 35 ár orsakist af vírus sem ráðist á rauðu blóðkornin í löxunum og valdi blóðleysi og hárri dánartíðni. Erfitt sé að greina sjúkdóminn á frumstigum. Hann dreifist með vatni, búnaði, úrgangi og mögulega einnig með laxalús áður en einkenna verði vart. Viðbrögð við blóðþorra hvíli mikið á að uppgötva sjúkdóminn snemma og á grisjun og slátrun og takmörkun á flutningum.
Þótt blóðþorra hafi aldrei verið að fullu útrýmt í Noregi þá hafa öryggisráðstafanir, þar með talið að hafa aðeins eina kynslóð eldislaxa saman og samhæfð stýring svæða, haldið tilfellunum tiltölulega stöðugum síðustu tvo áratugina að því er segir í grein salmonbusiness.com. Manolin bendi á að núverandi kerfi séu árangursrík en segi þau viðkvæm gagnvart andvaraleysi í rekstrinum og gagnvart breytingum í stefnu sem tekin sé í honum.
Landlægur í Noregi
Áfram segir að þrátt fyrir að tiltæk séu þróuð tæki til greiningar á blóðþorra, bólusetningar og strangari öryggisferla ítreki Manolin að þetta allt þjóni því að aðeins að tefja útbreiðsluna en komi ekki í veg fyrir hana. Blóðþorri sé áfram „landlægur“ á mörgum svæðum og að þurfi stöðuga árvekni til að forðast stærri kerfishrun.
Að því er segir í greininni voru nærri tvö hundruð milljón eldislaxar bólusettir gegn blóðþorra í Noregi á árinu 2024. Samt sem áður sé geta iðnaðarins til að bregðast strax við smitum áfram veik. Það sem skilja muni á milli víðtækrar útbreiðslu og viðráðanlegra smita verði getan til að uppgötva smit snemma, hröð viðbrögð og áreiðanlegur rammi utan um eldið.