Áhugi ungs fólks á sjávarútvegi virðist hafa vaxið mjög undanfarin ár. Þetta sést meðal annars á því að í kringum árið 2007 voru nemendur í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri um það bil þrír til fimm á ári og til stóð að leggja námsbrautina niður. Nú eru nemarnir hins vegar um sjötíu talsins.
Hreiðar Þór Valtýsson, lektor við Háskólann á Akureyri, segir ástæðurnar helgast af því að fólk sé farið að gera sér betur grein fyrir því hve mikil fjölbreytni er í atvinnugreininni. Unnið hafi verið markvisst að þessari viðhorfsbreytingu með styrkjum frá menntamálaráðuneytinu og LÍÚ, svo virðist sem það starf sé nú að bera ávöxt.
„Við tölum stundum um að atvinnugreinin byggi á þremur máttarstólpum, það er að segja: veiðar, viðskipti og vísindi," segir Hreiðar. Hann bætir því næst við að fólk sé í síauknum mæli farið að gera sér grein fyrir því að íslenskur sjávarútvegur sé tæknivædd og arðbær atvinnugrein sem skipi sér í fremstu röð á alþjóðamörkuðum. Tækifærin í greininni séu því afar margvísleg.
Frá þessu er skýrt á vef LÍÚ.