Það sem komið hefur hvað mest á óvart í rannsóknum á hvalveiðistöðvum á vestanverðu landinu er hve stóran þátt sögunnar er að finna í sjónum fyrir framan stöðvarnar. Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur hefur lokið rannsókn á áttundu og síðustu hvalveiðistöðinni á Vestfjörðum.

Rannsókn Ragnars, Hvalveiðar við Ísland, hófst árið 2005 með rannsókn á hvalveiðistöðvum frá 17. öld á Ströndum. Verkefnið vatt upp á sig og leiddi Ragnar áfram til rannsóknar á hvalveiðum Norðmanna við landið á 19. öld.

Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur hefur rannsakað hvalveiðistöðvarnar á Vestfjörðum. Myndir/aðsendar.
Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur hefur rannsakað hvalveiðistöðvarnar á Vestfjörðum. Myndir/aðsendar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Núna í sumar lauk ég rannsókn á áttundu hvalveiðistöðinni sem var á Suðureyri við Tálknafjörð og þar með hef ég lokað hringnum hér á Vestfjörðum. Norðmenn hófu hér hvalveiðar árið 1883 í Önundarfirði og Álftafirði. Þetta varð það mikill iðnaður að hann olli straumhvörfum fyrir íslenskt samfélag. Hvalveiðar Norðmanna urðu líka stór hluti af allri innkomu í landsjóð Íslendinga á seinni hluta 19. aldar. Þó voru veiðarnar ekki stundaðar mjög lengi á Vestfjörðum, einungis frá 1883 og fram á 20. öld þegar hvalveiðar voru bannaðar með lögum 1915. Í byrjun 20. aldar færðu Norðmennirnir sig yfir á Austfirði. Þetta tímabil er oft kallað „Hvaladrápið mikla“ enda veiddu Norðmenn allt að 10 þúsund hvali yfir þetta tímabil,“ segir Ragnar.

Eins og nærri má geta höfðu hvalveiðarnar áhrif á íslenskt samfélag. Ragnar segir að með þessari útgerð hafi Norðmenn í raun kennt Íslendingum verksmiðjurekstur. Hvalveiðarnar hafi þannig verið kveikjan að íslenskri fiskiskipaútgerð. Ragnar gengur svo langt að segja að Norðmenn hafi í raun dregið Íslendinga inn í iðnbyltinguna með hvalveiðum sínum.

Þéttbýlisstaðir myndast

Ragnar segir rannsóknina einnig leiða í ljós að þessar átta hvalveiðistöðvar á Vestfjörðum leggjast ekki allar af þegar Norðmenn hætta hér hvalveiðum. Bræðslurnar sjálfar, sem yfirleitt voru múrsteinshús, urðu kjarninn í áframhaldandi útgerð. Íslendingar tóku  þær yfir og nokkrar þeirra voru starfandi langt fram á 20. öldina. Sumar sem hvalveiðistöðvar og aðrar sem vinnslustöðvar fyrir annað sjávarfang. Stöðvarnar hafi þannig skipt gríðarlegu máli fyrir þessar byggðir á fyrri hluta 20. aldar. Þannig hafi hvalveiðistöðin í Tálknafirði til að mynda verið starfrækt fram yfir miðja 20. öldina. Hvalveiðistöðin á Stekkeyri í Jökulfjörðum var starfrækt sem síldarverksmiðja fram til 1940. Stórt og öflugt samfélag hafi skapast í kringum þessa starfsemi og telur Ragnar hugsanlegt að byggðin á Hornströndum hefði haldist lengur hefði rekstrinum ekki verið hætt. Í Álftafirði voru tvær hvalveiðistöðvar, á Dvergasteinseyri og á Langeyri. Þéttbýlisstaðir mynduðust í kringum stöðvarnar og þeim fylgdi mikið líf og atvinna. Talað var um þorpið hinum megin á Tálknafirði þar sem hvalveiðistöðin var.

Flakið af skonnortunni Bergljótu við Dvergasteinseyri.
Flakið af skonnortunni Bergljótu við Dvergasteinseyri.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Timbrið enn nýtt

Hvalstöðin við Meleyri við Veiðileysufjörð hafði nokkra sérstöðu því hún samanstóð af nokkrum timburbyggingum sem eru horfnar af staðnum. Timbrið var flutt og nýtt til húsbygginga víða í landinu. Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu stóð áður á hvalstöðinni á Sólbakka í Önundarfirði sem einnig samanstóð af timburbyggingum. Einnig eru tvö hús á Ísafirði samtímans sem flutt voru frá hvalstöðinni á Stekkeyri. Önnur varanleg áhrif sem vera norsku hvalveiðimannanna hafði á íslenskt samfélag var að þeir kynntu fyrir Íslendingum gönguskíði.

„Það sem hefur komið mér mest á óvart í þessari rannsókn er neðansjávarhluti minjanna. Þar var söguna að finna að stórum hluta. Þarna er gríðarlega mikið af minjum og þá sérstaklega hvalbeinum. Það eru heilu hvalbeinakirkjugarðarnir fyrir framan allar hvalveiðistöðvarnar. Í þessum hvalbeinum er mikill líffræðilegur efniviður sem gefur hugmyndir um veiðarnar og ástand hvalastofna. Við rannsökuðum bein frá Langeyri, Dvergasteinseyri og Uppsalaeyri í Seyðisfirði og tegundargreindum þau. Með því móti sáum við hvaða hvali Norðmenn veiddu helst. Það kom í ljós að þeir höfðu einbeitt sér að steypireið. Þeir veiddu líka mikið af langreið og reyndar öllum öðrum hvalategundum. Þetta gátum við borið saman við veiðitölur frá þessu tímabili og það var mikil samsvörun þarna á milli. Niðurstaða mín er sú að það fæst einungis helmingurinn af sögunni með því að skoða einungis minjar á landi,“ segir Ragnar.

Hvalbein á hafsbotninum við Dvergasteinseyri.
Hvalbein á hafsbotninum við Dvergasteinseyri.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hvalveiðistöðvar fyrir austan

Stuðst var við sónarmælingar við neðansjávarrannsóknirnar auk þess sem Ragnar kafaði niður að minjum. Auk hvalbeina fundust skipsflök og mikið af gripum af alls konar tagi, t.d. bjór-, brennivíni- og rauðvínsflöskur fundust og við eina hvalveiðistöðina fannst rommflaska frá fyrri hluta 20. aldar. Sá fundur bendir til þess að hvalveiðimennirnir hafi verið vel stæðir því rommið höfðu þeir líklega fengið alla leið frá Suður-Ameríku.

Upphaflega ætlaði Ragnar að beina sjónum eingöngu að hvalveiðistöðvum á Vestfjörðum en sú hugsun sækir á hann núna að ljúka þessari rannsókn með því að skoða hvalveiðistöðvarnar þrjár í Hellisfirði, Mjóafirði og Reyðarfirði á Austurlandi.

„Þær eru ekki margar hvalveiðistöðvarnar við landið en þær eru hluti af iðnaðarsögu Evrópu og rannsóknir á þeim hafa þar af leiðandi alþjóðlegt gildi. En innan fornleifafræðinnar á Íslandi fær þessi þáttur sögunnar litla athygli og lítil áhersla hefur verið lögð á hann. Dæmi um það er að nú er verið að reisa kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði ofan á neðansjávarminjum þrátt fyrir ábendingar um mikilvægi staðarins. Það myndu allar hlaupa upp til handa og fóta ef þarna leyndust landnámsminjar. Þetta lýsir kannski viðhorfinu til yngri minja. Að mínu mati eru þessar minjar ekkert síðri og í raun afar merkilegar því þær segja okkur þá sögu hvernig við sem þjóð færðumst inn í nútímann. Minjarnar segja ekki bara sögu hvalveiða Norðmanna heldur líka sögu samfélagsins á þeim tíma.“