Útflutningsverðmæti sjávarafurða drógust saman um 15,2% árið 2017 miðað við árið 2016. Þar munar mestu um að þorskafli á síðasta ári var um 120.000 tonn samanborið við 136.000 tonn árið 2016. Það ár voru útflutningsverðmæti þorskafurða um 100 milljarðar króna en um 84 milljarðar króna árið 2017. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir tvær meginskýringar á samdrætti í aflaverðmætum. Annars vegar sé þar um að ræða hátt gengi íslensku krónunnar og hins vegar áhrif frá sjómannaverkfallinu sem stóð yfir frá því í desember 2016 fram til 19. Febrúar 2017.

Flutt voru út 610.000 tonn af sjávarafurðum á síðasta ári en tilsvarandi magn árið 2016 var 580.000 tonn. Aukning varð í veiðum í öllum uppsjávartegundum á árinu 2017 samanborið við fyrra ár, mest í kolmunna þar sem veiðin fór úr 26.000 tonnum 2016 í 52.000 tonn 2017.

„Það er sitt lítið af hverju sem veldur þessum samdrætti. Verkfallið í byrjun ársins hefur sín áhrif og síðan er það gengi íslensku krónunnar. Svo virðist sem ekki hafi tekist að setja þannig í kraft í veiðarnar eftir að verkfallið leystist að áhrifa verkfallsins gæti ekki. Það urðu lítilsháttar lækkanir á mörkuðum en ég myndi ekki segja að það sé stór þáttur í þessum samdrætti. Stóru liðirnir eru gengið og sjómannaverkfallið,“ segir Heiðrún Lind.