Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) segja nýja tilraunatölfræði Hagstofu Íslands benda til þess að áhrif Covid-19 á útflutning sjávarafurða séu veruleg.

„Ætla má að áhrifa af COVID-19 gæti frá viku 13, eða í kringum 20. mars. Útflutningur næstu fjórar vikur á eftir, fram til viku 17, nam 19 milljörðum króna. Útflutningurinn nam rúmlega 25 milljörðum króna þessar sömu vikur í fyrra. Þetta er um 26% samdráttur í krónum talið en rúm 34% á föstu gengi," segir á vef SFS.

„Skipulagið sem sjávarútvegur býr við kemur þó í veg fyrir að verr fari, því það flýtir fyrir aðlögun hans vegna breyttra aðstæðna. Verður því áhugavert að fylgjast með framvindunni á næstu vikum".

SFS bendir einnig á að verulegar vendingar hafi verið á tölum um útflutning á sjávarafurðum á fyrsta fjórðungi ársins, sem birtar voru síðasta fimmtudag.

„Stuttu eftir að Hagstofan birti þær, að morgni dags, kom í ljós að útflutningsverðmæti sjávarafurða var ofmetið um tæpa 12 milljarða króna, en það var leiðrétt samdægurs. Fór útflutningsverðmæti sjávarafurða úr því að vera talið 75 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi, niður í rúma 63 milljarða."

Þessa skekkju segir SFS að megi rekja til verklags tollayfirvalda, því „tölurnar komi alltof seint og fangi því ekki ástandið á hverjum tíma."

Þannig megi rekja þessa 12 milljarða skekkju til útflutnings á árunum 2014 til 2018 og hafi gögnin verið allt að sex ára gömul þegar þau bárust til Hagstofunnar nú á fyrsta ársfjórðungi 2020.