Guðmundur Birkir Agnarsson, skipstjóri á sjómælingaskipinu Baldri, segir sjókort sérhæfð kort með mikilvægum upplýsingum fyrir sjófarendur til að auka öryggi í siglingum. Kortin gefi meðal annars upplýsingar um dýpi, lögun og einkenni strandar og lands, hættur ýmiss konar, svo sem grynningar og boða, sjómerki og staðsetningu og ljóseinkenni vita.
„Skipum og bátum er gert skylt að hafa um borð sjókort í sem nákvæmustum mælikvarða af því svæði sem siglt er um ásamt áhöldum til að setja út í kort. Sjókortin eru í mismunandi mælikvörðum og eftir því sem mælikvarðinn stækkar þá verða upplýsingar ítarlegri,“ segir Guðmundur Birkir.
Átta með sérhæfða menntun

Þrátt fyrir að flestir skipstjórnarmenn styðjist við rafræn sjókort við siglingu skipa þá minnir Guðmundur Birkir á að það sé enn þá skylda að hafa pappírskort um borð í skipum nema um borð sé viðurkennt rafrænt sjókorta- og upplýsingakerfi, svokallað ECDIS.
Að sögn Guðmundar Birkis eru sjómælingar og sjókortagerð í höndum sjómælinga- og siglingaöryggisdeildar Landhelgisgæslunnar. Þar starfa átta manns með sérhæfða menntun ýmist til sjómælinga eða sjókortagerðar.
„Sjómælingamenn eru jafnframt skipstjórnarmenn og skipa þá einnig áhöfn sjómælingabátsins Baldurs sem Landhelgisgæslan gerir út. Baldur er gerður út til sjómælinga frá vori til hausts og er þá safnað saman dýpis- og staðsetningaupplýsingum til nota í sjókort,“ segir Guðmundur Birkir.
Skylda að viðhalda kortum
Sjókort taka breytingum ef nýjar upplýsingar koma fram. Má þar nefna breytingar á dýpi, sjómerkjum, legu lands eða hafnarmannvirkja og einnig ef fyrirstaða er sett í sjó, til dæmis ef lögð eru út rannsóknadufl eða sett upp sjókvíaeldi.
„Upplýsingar um slíkt berast sjófarendum með svokölluðum tilkynningum til sjófarenda, sem Landhelgisgæslan gefur út að öllu jöfnu einu sinni í mánuði. Það er svo á ábyrgð skipstjórnarmanna að viðhalda sjókortum í samræmi við tilkynntar breytingar og mikilvægt að það sé gert. Stórfelldar og varanlegar breytingar á sjókortum leiða þó gjarnan til nýrrar útgáfu af kortinu,“ undirstrikar Guðmundur Birkir.

Fyrsta kortið fyrir 236 árum
Fyrsta eiginlega sjókortið við Ísland kom að sögn Guðmundar Birkis út árið 1788. Það hafi verið af innanverðum Faxaflóa. „Var kortið gefið út af dönsku sjómælingastofnuninni en lengi vel voru það Danir sem sáu um sjómælingar og sjókortagerð við Ísland,“ segir hann.
Að sögn Guðmundar Birkis var strandlengja Íslands þríhyrningamæld í byrjun nítjándu aldar og lega landsins og lögun ákvörðuð. „Var það ekki síst gert til að geta gefið út eins nákvæm sjókort og kostur var á en öll ákvörðun staðsetninga með ströndinni byggðist á hornamælingum af þekktum viðmiðum í landi. Því skipti máli að landið væri mælt og teiknað upp með sem nákvæmustum hætti,“ segir hann.
Danir sinntu mælingunum mismikið að sögn Guðmundar Birkis. Oft hafi orðið löng hlé á milli þess sem gerðar voru skorpur í dýptarmælingum til sjókortagerðar.

Sýknaðir vegna galla í kortum
„Þegar fiskveiðar erlendra skipa fóru að aukast við Íslandsstrendur jukust einnig ólöglegar veiðar þeirra. Þegar landhelgisbrot fóru fyrir rétt kom oft í ljós að skekkjur og takmarkaðar upplýsingar í sjókortum gátu leitt til sýknu. Skömmu fyrir aldamótin 1900 veittu Danir því fé til mælinga við Ísland og var í um áratug mælt á hverju ári þar til mælingum var talið lokið árið 1908. Það var hins vegar fjarri sanni og héldu mælingar áfram með mismiklum þunga.“
Árið 1930 tóku Íslendingar síðan yfir sjómælingar af Dönum. Guðmundur Birkir segir Dani þó hafa haldið áfram prentun og útgáfu sjókorta af Íslandsmiðum allt til ársins 1960 að kortagerðin og útgáfa sjókorta færðist einnig í hendur Íslendinga. Stofnun sem þá hét Sjómælingar Íslands var árið 1982 færð undir stjórn Landhelgisgæslunnar.

Mældu með blýlóðum
Tæknin við sjómælingar hefur vitaskuld tekið miklum breytingum í gegn um tíðina. „Dýptarmælingar voru upphaflega gerðar með handlóði, sem er blýsökkva sem slakað er niður með línu, og eins og áður segir voru staðsetningar ákvarðaðar með hornamælingum af viðmiðum í landi, og voru þær mælingar gerðar með sextant,“ segir Guðmundur Birkir. Á millistríðsárunum hafi síðan verið farið að nota bergmálsdýptarmæla þar sem dýpi undir mælingaskipi ritaðist jafnharðan á pappír.
Rafeindatæki inn í myndina
„Þegar komið var fram yfir miðja 20. öldina fóru að koma sérstök rafeindatæki til staðarákvörðunar og með þessum tækjabúnaði jukust bæði afköst sem og þær upplýsingar sem safnað var. Öllum gögnum var safnað á pappír og var mikil handavinna bæði við mælingar og kortagerðina sjálfa,“ segir Guðmundur Birkir.
Fyrrum voru notaðir mælar sem í dag eru kallaðir eingeislamælar til aðgreiningar frá svokölluðum fjölgeisladýptarmælum sem eru að mestu notaðir í dag, meðal annars í Baldri.
„Með tilkomu fjölgeislamæla er nú unnt að þekja allan hafsbotninn á þeim svæðum sem mæld eru og ætti því ekkert að verða út undan,“ segir Guðmundur Birkir.

Ekki mörg svæði ókortlögð
Aðspurður segir Guðmundur Birkir það ekki vera mörg svæði við ströndina sem aldrei hafi verið mæld eða kortlögð. Nokkuð hafi verið um slík svæði í Breiðafirði og við Ísafjarðardjúp. Á árunum 2017 til 2020 hafi Baldur verið gerður út til dýptarmælinga í Breiðafirði.
„Eitthvað er þó eftir af ómældum svæðum þar, en þó meira af svæðum með ónógum eldri mælingum, meðal annars handlóðsmælingum, sem þarfnast þá endurmælingar með nútíma tækni,“ segir Guðmundur Birkir og minnir á að í Breiðafirði er mikið um eyjar og sker, blindsker og boða. Því sé mikilvægt að hafa nákvæmar upplýsingar fyrir sjófarendur.
Það sama segir Guðmundur Birkir að megi segja um nokkra innfirði Ísafjarðardjúps og Jökulfjarða sem aldrei höfðu verið dýptarmældir kerfisbundið. „En á árunum 2020 til 2022 var Baldur gerður út til mælinga á þeim slóðum og hafa nú öll svæði á þeim slóðum verið mæld með nútíma tækni.“
Nýjar mælingar vegna skemmtiferðaskipa
Síðasta sumar hóf áhöfn Baldurs svo skipulagðar dýptarmælingar í Húnaflóa. Segir Guðmundur Birkir gert ráð fyrir nokkrum sumrum í mælingar þar. „Í upphafi er lögð áhersla á svæði inn með Ströndum, það er frá Horni að Gjögri og út undir Óðinsboða. Á þessu svæði eru gamlar mælingar, gerðar fyrir miðja síðustu öld og sumar hverjar handlóðsmælingar.“

Hvað varði svæði sem þurfi að endurmæla vegna gamalla og/ eða ónógra mælingar segir Guðmundur Birkir nokkuð mikið um slík svæði. Flest þeirra séu þó ekki talin mjög varasöm nema þá allra næst ströndinni.
„Hvað forgang varðar þegar ákvarðað er hvar Baldur er við mælingar hverju sinni þá er meðal annars miðað við umferð skipa og báta. Þannig þótti til að mynda mikilvægt að ljúka mælingum í Ísafjarðardjúpi þegar uppbygging fiskeldis hófst þar og í framhaldinu var ákveðið að halda til mælinga inn með Ströndum þar sem skemmtiferðaskip, svokölluð leiðangursskip, voru farin að sigla inn á það svæði.“
Kynni sér upplýsingarnar
Guðmundur Birkir segir að mikilvægt sé að skipstjórnarmenn kynni sér hvaða upplýsingar liggja að baki dýpistölum og jafndýpislínum í sjókortum.

„Það eru mögulega dæmi um að skipstjórnarmenn hafi lesið rangt út úr þeim sjókortum sem þeir hafa stuðst við og þannig talið að dýpi hafi verið nægjanlegt miðað við djúpristu skipa þrátt fyrir að upplýsingar gefi til kynna að um ónógar mælingar sé að ræða. Þá eru einnig til dæmi um að skipstjórnarmenn hafi ekki uppfært kort í samræmi við tilkynningar til sjófarenda, eða hreinlega ekki keypt ný sjókort sem gefin hafa verið út vegna breytinga til að mynda í og við hafnir, og að slíkt hafi leitt til óhappa.“
Það er hlutverk Landhelgisgæslunnar að sjá um sjómælingar meðfram strönd landsins, utan hafna, og innan efnahagslögsögunnar. Guðmundur Birkir segir Landhelgisgæsluna og Hafrannsóknastofnun hins vegar eiga í samstarfi þannig að Gæslan annist dýptarmælingar á grunnslóðinni niður á um 100 metra dýpi og Hafrannsóknastofnun þar fyrir utan.
Baldur heppilegur til mælinga
„Baldur er af heppilegri stærð og einstaklega vel búinn tækjum til sjómælinga á grunnslóðinni og á móti er hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson búið góðum tækjabúnaði til mælinga á dýpra vatni. Þykir þetta samstarf um skiptingu hafsvæða því afar heppilegt og hefur það gengið vel,“ segir Guðmundur Birkir.

Vegagerðin sér síðan að mestu leyti um dýptarmælingar í höfnum. Landhelgisgæslan hefur þó mælt fyrir Faxaflóahafnir. Baldur er gerður út til mælinga frá vori til hausts eftir því sem veður og sjólag leyfir.
„Sumrin eru því notuð til mælinga en yfir vetrartímann vinna skipstjórnarmenn Baldurs, sem jafnframt eru menntaðir sjómælingamenn, úr mælingagögnum. Úrvinnsla tekur mikinn tíma en áður en hægt er að afhenda mælingagögnin til sjókortagerðarmanna þarf að yfirfara gögnin, hreinsa út truflanir sem fram koma við mælingarnar, setja inn leiðréttingar eftir þörfum, það er að segja hljóðhraðamælingar og þá flóðmælingar ef svo ber undir,“ segir Guðmundur Birkir.
Breiðafjörðurinn snúinn
Spurður hvort ákveðin svæði hér við land séu snúnari en önnur er komi að sjómælingum segir Guðmundur Birkir það til dæmis eiga við um svæði með víðtækum og mörgum grynningum.
„Breiðafjörðurinn er sennilega með erfiðari svæðum til mælinga vegna mikils fjölda eyja og skerja ásamt boðum og blindskerjum. Einnig eru miklir straumar í firðinum. Mælingar þar eru því talsverð áskorun sem gerir starfið ekki síður skemmtilegt og áhugavert. Þá er svæðið sem við byrjuðum á síðastliðið sumar við Strandir nokkuð krefjandi en þar er talsvert um grynningar. Einnig geta frátafir vegna sjólags verið nokkrar ef leggst í norðlæga átt,“ segir Guðmundur Birkir að lokum.
