Þriggja manna áhöfn smábátsins Saga K var bjargað um borð í björgunarþyrlu norsku strandgæslunnar í dag þar sem báturinn var að sökkva um 30 sjómílur norðvestur af Slettnes í Finnmörku í Norður-Noregi.

Saga K er í eigu Íslendinga sem gera út í Noregi og var smíðaður hjá Trefjum í Hafnarfirði.

Neyðarsendir bátsins fór í gang um klukkan átta í morgun og þegar þyrlan kom að honum var báturinn vel siginn í sjónum. Björgunin gekk að óskum og varð skipverjum ekki meint af.

Í frétt á vef norska sjávarútvegsblaðsins Fiskeribladet/Fiskaren segir að báturinn hafi trúlega fengið á sig brotsjó sem gerði það að verkum að allur rafbúnaður fór úr sambandi. Báturinn er fullur af sjó en björgunarskip er á staðnum og kannar hvort mögulegt sé að bjarga honum. Suðaustan kaldi er á svæðinu.

Útgerðarfélagið Esköy sem á bátinn gerir einnig út annan bát, Ástu B, til veiða frá Noregi.