Söluhorfur fyrir sjófrystan og landfrystan þorsk eru ágætar og verð hefur verið að styrkjast síðustu mánuðina eftir verulega niðursveiflu í kjölfar efnahagshrunsins, að því er fram kemur í Fiskifréttum í dag.

,,Fínt verð fékkst fyrir sjófrystan fisk sem landað var fyrir jólin og útlit er fyrir áframhald á því í janúar og febrúar. Það tengist dálítið því að búist er við að Rússar muni eiga í einhverjum vandræðum með að útvega veiðivottorðin sem Evrópusambandið krafðist frá og með síðustu áramótum. Markaðirnir í Evrópu verða því meira og minna í höndunum á Íslendingum, Norðmönnum og Færeyingum til að byrja með. Svo er líka prýðisgóð eftirspurn eftir sjófrystum þorski í Bandaríkjunum. Ágætar söluhorfur eru einnig fyrir landfrystan þorsk þegar á heildina er litið þótt einhverjir markaðir séu þyngri en aðrir,” sagði Friðleifur Friðleifsson sem stjórnar sölu á frystum afurðum hjá Iceland Seafood.

Sjá nánar markaðshorfur fyrir frystan og saltaðan þorsk í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.