Matvælaráðuneytið kynnti í sumar áform um lagabreytingar sem eiga að heimila skipasmiðum að smíða bæði stærri krókaaflamarksbáta, séu þeir knúnir vistvænum orkugjöfum, og stærri skipsskrúfur í hlutfalli við vélarafl. Báðar þessar breytingar eiga að greiða fyrir orkuskiptum og gera útgerðina umhverfisvænni.

„Með því að stækka skrúfu samfara hæggengari vél hefur náðst umtalsverður árangur í olíusparnaði. Stærri skrúfa (aukið þvermál) þýðir hækkaðan aflvísi, sem leiðir til þess að óbreyttu að heimildir smærri togskipa til veiða innan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar skerðast,“ segir í kynningu ráðuneytisins á Samráðsgátt stjórnvalda.

„Þá hafa stærðartakmarkanir áhrif á upptöku nýrra orkugjafa á krókaaflamarksbátum og er því fyrirhugað að leggja til heimildir fyrir því að slíkir bátar verði stærri séu þeir knúnir áfram af vistvænum orkugjöfum. Einnig þarf að huga að öryggi áhafnar ef notast er við mjög eldfiman orkugjafa,“ segir enn fremur í kynningunni.

Hindrunum rutt úr vegi

Skipaverkfræðingar eru almennt ánægðir með fyrirhugaðar breytingar. Þrír þeirra sendu inn umsagnir við áformin á Samráðsgátt stjórnvalda, þeir Bárður Hafsteinsson, Alfreð Tulinus og Kári Logason, allir hjá Nautic.

„Sem skipaverkfræðingur, með allnokkra reynslu, þá er ég Sem skipaverkfræðingur, með allnokkra reynslu, þá er ég ánægður með að hugmyndir eru nú uppi með að fjarlægja hugtakið aflvísir úr lögunum,“ segir Bárður Hafsteinsson skipaverkfræðingur í umsögn sinni. Enn fremur segir hann: „Ef brúttó tonna krafan er fjarlægð úr lögum nr. 116/2006 verður stórri hindrun, sem íslensk löggjöf setur, rutt úr vegi við orkuskipti í þessari tegund skipa.“

„Almennt þá erum við skipahönnuðir þeirrar skoðunar að allar þær hömlur sem settar eru á hönnun skipa og hafa það að markmiði að stýra, eða takmarka, sókn á viss veiðisvæði séu ekki af hinu góða með tilliti til hagkvæmni og öryggi skipsins í rekstrarlegu sjónarmiði,“ segir Alfreð Tulinius. „Við teljum vænlegra að stýra sókn með takmörkunum í stærð og útfærslum þeirra veiðafæra sem leyfilegt er að nota á mismunandi svæðum.“

Nauðsynlegt frjálsræði

Hann segir það „undir öllum kringumstæðum skynsamlegt við endurskoðun laga í kringum þennan útgerðarflokk að við skipahönnuðir höfum allt það frjálsræði sem þarf til að gera skipið sem hagkvæmastan fjárfestingarkostinn til þeirra verkefna sem kaupandi sér sem skynsamlegastan kost fyrir sitt útgerðarmunstur. Gleymum því ekki að þessi skip eru að veiða úr takmörkuðum aflaheimildum sem skipið hefur úr að moða ár hvert, og því skiptir stærð eða afl ekki meginmáli í þessari mynd. Stýring á sóknarsvæði í þessum útgerðaflokki er betur fyrir komið með öðrum hætti en að setja skipinu þannig skorður að úr verður einhver bastarður.“

Skilja eftir sig eyðimörk

Smábátasjómenn hafa lýst sig andvíga þessum áformum. Þannig mótmælir Landssamband smábátaeigenda (LS) „harðlega öllum hugmyndum um aukna sókn togskipa innan 12 sjómílna fiskveiðilandhelginnar. Telji Hafrannsóknastofnun að auka þurfi veiðar á grunnslóð er það tillaga LS að það verði gert með veiðum dagróðrabáta sem nota umhverfisvæn veiðarfæri.”

Næg sóknargeta sé fyrir hendi hjá bátum sem nota kyrrstæð veiðarfæri.

„Notkun trolls og dragnótar við veiðar nálægt landi skilur eftir sig eyðimörk og fiskleysi á miðum smábáta sem ekki hafa stærðar sinnar vegna möguleika á að sækja á aðrar veiðislóðir.“ Hvað varðar stærðarmörk krókaaflamarksbáta vísar LS til þess að þegar stækkun úr 15 brt í 30 brt var leyfð árið 2013 hafi það leitt „til stórfelldrar fækkunar smábáta með aflahlutdeild og þar með minnkandi vægi einyrkja í útgerð“.

Fráleitt

Magnús Jónsson, formaður Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar, tekur í sama streng og segir þessa „tillögugerð fráleita og í engu samræmi þá almennu stefnu á heimsvísu að draga úr togveiðum á fiski. Veiðar með botndregnum veiðarfærum valda stórfelldri losun á koltvísýringi umfram það sem losnar við brennslu á eldsneyti á aflvélar skips“ og það geti „á engan hátt samræmst stefnu stjórnvalda á Íslandi að auka togveiðar undir yfirskini umhverfisverndar og losunar á gróðurhúsalofttegundum. Þvert á móti ætti að stefna að því að draga úr slíkum veiðum, einkum og sér í lagi á grunnslóð og inn á fjörðum.“

Og Kári Borgar Ásgrímsson, smábátasjómaður á Borgarfirði eystra, segir að hér sé verið að „fara fram á að stærri og öflugri togskip fái að fara inn fyrir 12 mílur… er það vilji löggjafans?“

Ekki alveg raunhæft

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja þessi áform hins vegar skref í rétta átt og styðja þau, enda hafi þau „löngum lagt áherslu á við stjórnvöld að þess verði gætt að regluverk hindri ekki áframhaldandi þróun í orkunýtingu og orkuskiptum“.

Þau vekja samt athygli á því að enn sé verið að þróa þá tækni sem þarf til að nýta vistvæna orkugjafa á hafi og enn sem komið er teljist ekki raunhæft að fiskiskip nýti alfarið vistvæna orkugjafa.

Ekki gleyma höfnunum

Hafnasamband Íslands sendi einnig inn umsögn og vakti þar athygli á því að forsenda fyrir orkuskiptum skipaflotans sé að „hafnir landsins geti byggt upp innviði hafna til að styðja við umrædd orkuskipti“.

Ljóst sé að hafnir þurfi að „fjárfesta fyrir tugi milljarða til þess að geta byggt upp innviði fyrir orkuskipti skipaflotans en slíkar fjárfestingar verða að njóta stuðnings frá ríkinu. Hafnasambandið fer því fram á að ráðuneytið hefji strax samtal um hvernig best sé að tryggja fjármagn til innviðauppbyggingar hafna.“

Svonefndur aflvísir er reiknaður út einfaldlega þannig að vélaraflið er margfaldað með þvermáli skrúfunnar. Þetta þýðir í raun ekki annað en að því stærri sem skrúfan er því minna má vélaraflið vera, og öfugt.