,,Það er ekkert gríðarlegt magn af loðnu að sjá en veiðin er búin að vera ágæt að undanförnu. Skipin eru öll í öðrum eða þriðja túr,” sagði Jóhannes Danner skipstjóri á Jónu Eðvalds SF frá Hornafirði þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans nú í morgun.

Loðnan hefur verið að síga suðaustur á bóginn síðustu dagana og eru bátarnir nú um 80 mílur úti af Héraðsflóanum. Alls voru níu skip á miðunum í morgun og eitt á landleið.

Öll skipin eru á tollveiðum og þrátt fyrir brælu í gær urðu ekki frátafir á veiðunum, en útlit er fyrir að það geti orðið í kvöld, að sögn Jóhannesar. Skipin hafa verið að hífa frá 150 tonnum og upp í 600 tonn eftir hefðbundin 4-6 tíma tog.

Loðnan fer mestöll til frystingar í landi.