Ísfisktogaranum Ásbjörn RE kom til hafnar í Reykjavík í gærkvöldi en skipið var þá að ljúka veiðiferð eftir veiðar á Vestfjarðamiðum. Aflinn er um 130 tonn og er uppistaða hans þorskur, að því er fram kemur á vef HB Granda.

,,Við byrjuðum túrinn reyndar hér fyrir sunnan og vorum að leita að ufsa. Það var lítið að hafa annað en karfa þannig að við sigldum fljótlega norður á Vestfjarðamið,“ sagði Friðleifur Einarsson skipstjóri á Ásbirni en er rætt var við hann síðdegis í gær var togarinn staddur vestur af Mýrum.

Á Vestfjarðamiðum var einnig leitað að ufsa í veiðanlegu magni en Friðleifur segir engan kraft hafa verið í ufsaveiðunum.,,Við veiddum því aðallega mjög góðan þorsk og fengum ufsa með. Ætli meðalvigtin á þorskinum hjá okkur sé ekki rúm fjögur kíló þannig að þetta er stór og góður fiskur,“ sagði Friðleifur Einarsson en að sögn hans var fínasta veður þann tíma sem skipið var á Vestfjarðamiðum. Dagana á undan var hins vegar haugabræla.“