“AG SEAFOOD EHF í Sandgerði og STOLT SEA FARM á Reykjanesi hafa skrifað undir samning er varðar verktöku við framleiðslu á öllum afurðum STOLT SEAFOOD FARM á Reykjanesi. Samningurinn er til 3ja ára en á samningstímanum mun AG annast framleiðslu og pökkun á afurðum STOLT á Reykjanesi. Á Reykjanesi hefur STOLT komið upp fullkomnu eldi á Senegal flúru en áætluð framleiðsla á árinu 2015 er um 500 tonn. Afurðirnar eru seldar ferskar á markaði bæði vestan hafs og austan. Langmesti hluti afurðanna verður fluttur út með flugi og mun framleiðslan hefjast seint á árinu 2014.
AG Seafood sérhæfir sig að mestu við veiðar og framleiðslu á flatfisktegundum og er því reynsla félagsins mikil við meðhöndlun flatfiskafurða. Samningur félaganna mun tryggja nokkur ný störf við framleiðslu hjá AG Seafood í Sandgerði en fyrir starfa hjá félaginu um 50 manns við veiðar og vinnslu.”