„Niðurstöður greininga sýna að seyran eða mykjan inniheldur gríðarlegt magn af mjög mikilvægum næringarefnum sem að mögulega væri hægt að nýta áfram til landgræðslu eða sem áburð eða í áburðarframleiðslu,“ segir Hildur Inga Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís og lektor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ sem stóð þann 11. mars síðastliðinn fyrir málstofu um mögulega notkun fiskeldisseyru í áburð.

Sýnishorn af unninni fiskeldisseyru eftir afvötnunarferli.  MYND/HILDUR INGA SVEINSDÓTTIR
Sýnishorn af unninni fiskeldisseyru eftir afvötnunarferli. MYND/HILDUR INGA SVEINSDÓTTIR

„Við höfum verið í samvinnuverkefni sem heitir AccelWater og höfum þar í samstarfi við Háskóla Íslands og Samherja fiskeldi skoðað þessa söfnun á fiskeldisseyru, eða fiskeldismykju“ segir Hildur. Komnar séu ýmis konar lausnir sem hægt sé að nýta til að safna efni úr frárennslinu frá landeldi.

„Mikil tækifæri liggja í notkun á seyrunni og á það sérstaklega við um fosfórinn úr henni sem er auðlind sem er erfitt að gefa frá sér ef maður hefur tækifæri á að nýta hana,“ segir Hildur. Mikilvægt sé það gera ítarlegri greiningar á því hvernig aðgengi plantna sé að þessum fosfór og öðrum næringarefnum úr seyrunni.

Gert aðgengilegt fyrir plöntur

„Við erum enn að átta sig á hvort það sé þörf á einhvers konar meðhöndlun til að gera fosfórinn og önnur næringarefni aðgengilegri fyrir plönturnar. Það er til dæmis vinna sem Landbúnaðarháskólinn hefur svolítið verið að skoða ásamt því að verið er að vinna að því að koma á laggir verkefni til að skoða það betur,“ segir Hildur.

Á fyrrnefndri málstofu segir Hildur aðallega hafa verið stefnt að því að draga saman þann hóp sem komi að þessu máli. Þá sé verið að tala um þá sem snúi að regluverki, leyfum og öryggi, fólk úr eldisiðnaðinum og úr ræktun argeiranum. Verið sé að reyna að stilla saman strengi og halda áfram með samtal sem hafi verið í gangi í tengslum við málstofu sem var haldin fyrr á árinu varðandi hvaða takmarkanir séu til staðar, út frá bæði löggjöf og innihaldi.

„Við erum að skoða hver tækifærin eru og síðan aðeins þessar tæknilausnir sem iðnaðurinn er byrjaður að prófa hjá og að lokum hvað þyrfti að gera fleira til að gera þetta að heppilegri vöru fyrir bændur til að nota. Það er ljóst að þetta verður gífurlegt magn af fiskeldisseyru sem verður aðgengilegt á næstu árum og næsta áratug hérlendis og við þurfum að sjá fyrir endann á því hvað verður hægt að gera við þetta allt saman,“ segir Hildur.

Bannað að urða seyruna

Fiskeldisseyran safnast fyrir í landeldi þegar frárennslis vatnið frá eldiskerjunum er hreinsað. „Þetta er það efni sem eins staðan er núna er ekki hægt að safna úr sjókvíaeldinu en er aðgengilegt og er mögulegt að fjarlægja úr frárennslis vatninu frá landeldisstöðvum. Þær mega, að ég best veit, í raun ekki urða þetta efni miðað við þær reglugerðir sem eru í gildi núna ásamt því að þarna liggja möguleg mikil verðmæti. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að finna einhverja góða leið til þess að nýta þetta,“ heldur Hildur áfram. Aðeins sé að opnast á að hægt sé að sækja um að nýta þetta sem áburð.

„Spurningin er hversu langt umfram það sé hægt að fara. Hvort það sé hægt að nýta þetta á tún eða í matjurtarækt eða annað slíkt líka til að geta nýtt seyruna á enn fleiri vegu og í meira magni innanlands,“ segir Hildur. Fiskeldisseyru hafi ekki verið safnað í miklu magni undanfarin ár en með þeim gríðarlega vexti sem nú sé í gangi í greininni muni það breytast.

Trukka ekki vatni um landið

„Landeldi hefur verið frekar lítið hérlendis áður en þessi uppbygging fer af stað og þess vegna hefur magnið ekki verið það mikið að þetta hafi verið eitthvað sem maður sér fyrir sér sem eitthvert mögulegt tækifæri og vandamál samhliða. En með auknu magni breytist það,“ útskýrir Hildur. Finna þurfi lausn til að gera seyruna stöðuga, til dæmis þurrka hana til að gera birgðahald og flutninga einfaldari.

„Við erum ekki að fara að trukka vatni um allt land þannig að það þarf að skoða þessa þætti líka. Fyrst stöðugleikann og söfnunina og síðan hvað þarf að gera fleira í framhaldinu, hvort það sé nóg bara að þurrka, hvort við séum að fara að nota þetta með öðru í áburðarfram leiðslu, hvort þetta sé notað eitt og sér eða með öðrum efnum,“ segir Hildur.

Sparað í innflutningi

Aðspurð segir Hildur mögulegt að hægt verði að nota áburð úr seyru á tún og akra. Seyran innihaldi til dæmis mikinn fosfór en vanti þó ákveðin önnur efni á móti.

„Þannig að með öðrum áburði gæti þetta verið mjög góð lausn til þess að veita okkur aðgengi að fosfór hér innanlands sem við annars erum að flytja inn í stórum stíl. Og fáum þá aðgengi að þessum nýja straumi af lífrænum áburði sem þá vonandi getur sparað okkar garðyrkjufólki og landgræðslufólki aðeins í innflutningi,“ segir Hildur.

Aðspurð hvort hún telji að þessi vinnsla á fiskeldisseyru geti borið sig fjárhagslega segir Hildur það auðvitað vera vonina.

„Þegar við skoðum tölurnar sjáum við að það magn sem verður til hér í eldinu verður það mikið að við náum jafnvel ekki að nýta það hérlendis. Þannig að það er mögulega spurning hvort þetta geti jafnvel orðið útflutningsvara,“ segir Hildur og bætir við að í Noregi séu fyrirtæki að taka við fiskeldisseyru til að framleiða úr áburð og selja.

Norskt fordæmi

„Það eru því alveg möguleikar til þess að þetta geti orðið hliðarverðmæti samhliða eldinu sjálfu. En það sem við þurfum að hafa í huga er náttúrlega að eldisfyrirtæki eru eldisfyrirtæki; þau eru að ala og framleiða fisk. Þannig að þarna liggur mögulega tækifæri fyrir sterka aðila á þessu sviði til að koma inn í verkefnið og vinna með eldisfyrirtækjunum,“ segir Hildur.

Að sögn Hildar hefur Matís einmitt nýlega fengið kynningu frá norsku fyrirtæki sem noti fiskiseyru í áburð. Það liggi því fyrir ákveðin aðferðafræði.

„Þetta norska fyrirtæki hefur tekið þátt í málstofum um þetta og miðlað sinni þekkingu og við erum náttúrlega að nýta okkur hana að einhverju leyti,“ segir hún.

Nánar um aðferðafræðina segir Hildur söfnun efnis úr seyrunni byggjast á síun og pressun. Síðan þurfi einhvers konar stöðgun sem sé þá oft efnafræðileg stöðgun með sýru eða basa. Spurning sé hvað komi næst.

„Það er spurning hvort næsta skref verði ekki þurrkun eða hvort það þurfi að fara í einhvers konar meiri með höndlun til þess að reyna að gera næringarefnin aðgengilegri fyrir plöntur. Það er enn verið að meta,“ segir Hildur.

Svangir sniglar trufluðu tilraun

Gerð var tilraun þar sem seyran var nýtt sem áburður fyrir salatplöntur. MYND/HILDUR INGA SVEINSDÓTTI
Gerð var tilraun þar sem seyran var nýtt sem áburður fyrir salatplöntur. MYND/HILDUR INGA SVEINSDÓTTI

Innan verkefnisins Accelwater var gerð lítil tilraun til að meta notkun fiskeldisseyru sem áburðar við ræktun á salatplöntum samanborið við tilbúinn áburð af markaði. Að sögn Hildar Ingu Sveinsdóttur gekk tilraunin vel þótt svangir sniglar hafi haft einhver áhrif á niðurstöður.

„Við ræktun á stærri salatplöntum var ekki marktækur munur á vexti plantnanna eftir því hvaða áburður var notaður. Innan annarra verkefna hafa verið framkvæmdar tilraunir, til dæmis hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem niðurstöður hafa verið aðeins misvísandi varðandi það magn seyru sem ætti að nota og aðgengi að ákveðnum næringarefnum og því mikilvægt að skoða þessa þætti betur svo áburðargildi efnisins verði sem mest,“ segir Hildur.