Samhliða auknu fiskeldi íslenskra eldisfyrirtækja hefur viðskiptalöndum greinarinnar fjölgað jafnt og þétt. Eldisafurðir fyrir rúma 36 milljarða króna voru fluttar út í fyrra, til á fimmta tug landa. Verðmætin hafa aldrei verið meiri eða löndin fleiri.

Um þetta fjallar Radarinn, mælaborð sjávarútvegsins , í greiningu.

Fyrir áratug voru löndin 25 og útflutningsverðmæti rétt rúmir fjórir milljarðar króna, reiknað á föstu gengi ársins 2021.

Um 73% af eldisafurðum voru flutt til Evrópu miðað við verðmæti árið 2021. Það er talsvert minna en vægi Evrópumarkaðar var á árinu 2020, þá nam hlutdeildin 86%.

„Ástæðan er einkum stóraukinn útflutningur á eldisafurðum vestur um haf, sem var langt umfram þá aukningu sem var á útflutningi til Evrópu. Þannig nam útflutningsverðmæti eldisafurða til Evrópu 26,5 milljörðum króna í fyrra, sem er ríflega 8% aukning á milli ára á föstu gengi, segir í greiningunni.

Eins að útflutningsverðmæti eldisafurða til Norður-Ameríku nam um 8,8 milljörðum króna, sem er um 144% aukning á milli ára. Hlutdeild Norður-Ameríku fór þar með úr tæpum 13% í rúm 24%.

Bandaríski markaðurinn hefur frá upphafi verið einn sá stærsti fyrir íslenskar eldisafurðir og sá langstærsti þegar kemur að bleikju. Hlutfallslega var aukningin í fyrra þó einna mest á útflutningi til Kanada. Alls voru fluttar út eldisafurðir til Kanada fyrir um tvo milljarða króna í fyrra.